Hoppa yfir valmynd
4. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Reglur um ráðstöfun 1.400 millj. kr. aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2007

Félagsmálaráðherra hefur, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, gefið út reglur um ráðstöfun 1.400 milljón króna aukaframlagsins til sveitarfélaga á árinu 2007. Framlaginu er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna. Á grundvelli viljayfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 22. mars 2007 nemur þetta tímabundna aukaframlag 1.400 milljónum króna á árunum 2007 og 2008.

Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessum reglum ef heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2007 er fullnýtt af sveitarstjórn.

Meginmarkmið reglnanna er að ná út frá hlutlægum mælikvörðum með sem bestum hætti til sveitarfélaga sem talin hafa verið utan vaxtarsvæða. Að auki hefur verið talin þörf á sérstöku framlagi til sameinaðra sveitarfélaga og sveitarfélaga í þeim hópi sem halda úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins.

Samkvæmt reglunum skiptist framlagið sem hér segir:

Framlag vegna íbúafækkunar (2. gr.): Varið skal 350 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem íbúum fækkaði árin 2002–2006. Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessari grein ef hlutfallsleg fækkun íbúa hefur verið umfram 1,5% á tímabilinu. Þó skal aðeins greiða framlag til sveitarfélaga þar sem fækkun íbúa er umfram níu á tímabilinu.

Framlag vegna þróunar útsvarsstofns (3. gr.): Varið skal 350 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun útsvarsstofns milli áranna 2001 og 2006 er lægri en heildarhækkun útsvarsstofns allra sveitarfélaga fyrir sama tímabil. Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessari grein hafi sveitarfélag ekki fylgt íbúaþróun Reykjavíkurborgar á sama tímabili.

Framlag vegna íbúaþróunar (4. gr.): Varið skal 350 milljónum króna til sveitarfélaga sem ekki hafa fylgt þróun Reykjavíkurborgar hvað íbúafjölda varðar árin 2002–2006.

 

Framlag til sameinaðra sveitarfélaga vegna þróunar útsvarsstofns o.fl. (5. gr.): Varið skal 275 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun útsvarsstofns er með sama hætti og í 3. gr. og íbúaþróun hefur verið með sama hætti og í 4. gr. Auk þess skal varið 75 milljónum króna til sveitarfélaga þar sem tekið er tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins. Við útreikning framlagsins koma til greina sveitarfélög sem hafa sameinast frá og með árinu 1984.

 

Framlög skv. 2. gr. og helmingur framlaga skv. 3. gr. verða greidd til sveitarfélaga eigi síðar en 15. október. Það sem eftir stendur verður greitt í desember eftir að fjáraukalög fyrir árið 2007 hafa verið samþykkt á Alþingi.

Skjal fyrir Acrobat ReaderReglur um ráðstöfun 1.400 milljóna króna aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2007, nr. 884/2007 (pdf, 194 kb)

Skjal fyrir Acrobat ReaderViljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 22. mars 2007 (pdf, 38kb)

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta