Markviss einföldun regluverks - minni skriffinnska
Eins og fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra hafa öll ráðuneyti undanfarna mánuði farið yfir reglur sem þau starfa eftir og stjórnsýsluframkvæmd til að koma auga á leiðir til að auðvelda almenningi og fyrirtækjum samskipti við hið opinbera. Hafa ráðuneytin einsett sér að vinna markvisst að úrbótum á næstu tveimur árum. Verður það gert með því að einfalda reglur og gera þær markvissari, sjá til þess að framkvæmd reglna verði sem minnst íþyngjandi, afnema óþarfa kröfur til fyrirtækja um leyfi og upplýsingagjöf, nýta betur kosti rafrænnar stjórnsýslu og bæta aðgengi almennings að upplýsingum um gildandi lög. Ganga má út frá því að ná megi fram umtalsverðum sparnaði fyrir alla hlutaðeigandi án þess að það komi niður á meginmarkmiðum löggjafar eða stjórnsýslu.
Ráðuneytin vonast eftir góðu samstarfi við Alþingi, í þeim tilfellum þar sem lagabreytinga er þörf, og hagsmunaaðila við að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Einföldunaráætlanir ráðuneytanna eru birtar nú í dag og eru þær aðgengilegar á heimasíðum þeirra. Þar verður einnig hægt að fylgjast með því hvernig gengur að hrinda þeim í framkvæmd. Þeim sem vilja koma á framfæri ábendingum varðandi framkvæmd áætlana er bent á að hafa samband við viðkomandi ráðuneyti.
Einföldunaráætlanir ráðuneytanna eru liður í aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland sem ríkisstjórnin samþykkti í október 2006. Meginábyrgð á framkvæmd hennar er á herðum hvers og eins ráðuneytis en forsætisráðherra hefur yfirumsjón með verkefninu og nýtur við það aðstoðar samráðshóps ráðuneyta, skrifstofu Alþingis, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fyrir utan markvisst átak til að einfalda gildandi reglur, felur áætlunin í sér að vandað verði sérstaklega til setningar nýrra reglna einkum ef þær eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki eða einstaklinga.
Einföldunaráætlun forsætisráðuneytisins
Einföldunaráætlun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins
Einföldunaráætlun félagsmálaráðuneytisins
Einföldunaráætlun fjármálaráðuneytisins
Einföldunaráætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins
Einföldunaráætlun iðnaðarráðuneytisins
Einföldunaráætlun landbúnaðarráðuneytisins
Einföldunaráætlun menntamálaráðuneytisins
Einföldunaráætlun samgönguráðuneytisins
Einföldunaráætlun sjávarútvegsráðuneytisins
Einföldunaráætlun umhverfisráðuneytisins