Umhverfisráðherra lýsir yfir áhyggjum af flutningi á kjarnorkuúrgangi
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sendi í gær Andreas Carlgren, umhverfisráðherra Svíþjóðar, bréf þar sem hún lýsti yfir áhyggjum af fyrirhuguðum flutningi á kjarnorkuúrgangi frá Svíþjóð til Sellafield endurvinnslustöðvarinnar í Englandi.
Í bréfinu segir að íslensk stjórnvöld óttist að þessar aðgerðir sænskra stjórnvalda grafi undan kröfum Íslendinga og fleiri þjóða um að endurvinnslustöðinni verði lokað, auki hættuna á mengunarslysi og sendi röng skilaboð um meðhöndlun kjarnorkuúrgangs. Þá segir að íslensk stjórnvöld telji heppilegra að kjarnorkuúrgangurinn verði meðhöndlaður og grafinn í Svíþjóð.
Um er að ræða tæp fimm tonn af kjarnorkuúrgangi sem féllu til við rekstur kjarnakljúfs sem var notaður við rannsóknir hjá Tækniháskólanum í Stokkhólmi. Rekstrinum var hætt árið 1970. Öllum öðrum kjarnorkuúrgangi sem fellur til við orkuframleiðslu í Svíþjóð er fargað þar.
Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað hvatt bresk stjórnvöld til að hætta rekstri kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield. Fleiri lönd hafa tekið þátt í þeirri baráttu og í mars á þessu ári komu umhverfisráðherrar Íslands, Noregs, Austurríkis og Írlands saman til fundar vegna málsins. Við það tækifæri sendu þeir frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem bresk stjórnvöld voru hvött til að opna ekki Thorp-endurvinnsluverið í Sellafield að nýju í ljósi ítrekaðra öryggisvandamála, en hefja þess í stað undirbúning að lokun Sellafield-stöðvarinnar.