Félagsmálaráðherra flutti ávarp við setningu aðalfundar Öryrkjabandalags Íslands í dag
Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra meðal annars um þau sameiginlegu gildi sem eru grundvöllurinn í stefnu stjórnvalda og Öryrkjabandalags Íslands og óskaði eftir góðu og farsælu samstarfi á komandi árum. Ráðherra fjallaði auk þess um ýmis málefni sem bera hátt þessi dægrin og sagði meðal annars: „Skoðað verður með sérstökum hætti samspil tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna til þess að tryggja sanngirni. Mér sýnist einsýnt að í fyrstu skrefum sem stigin verða, verður að afnema að bætur almannatrygginga skerðist vegna tekna maka. Ég vil líka nefna viðbótarlífeyrissparnaðinn. Að mínu viti felst í því hrópandi óréttlæti að hluta þess hóps sem sýnir fyrirhyggju á yngri árum og leggur fyrir með frjálsum sparnaði í lífeyrissjóð, sé refsað með skerðingum á lífeyri þegar kemur að því að nýta sparnaðinn, þannig að fólk geti lent í því að 2/3 hóflegs lífeyrissparnaðr fari í skatta og skerðingar.“
Síðar í ávarpinu vék ráðherra orðum að yfirfofandi skerðingum nokkurra lífeyrissjóða á örorkulífeyri félagsmanna þeirra:
„Ég geri mér grein fyrir því að staða ýmissa lífeyrissjóða sem boða þessa skerðingu er erfið vegna mikilla örorkugreiðslna, en það verður samt að leysa þessi mál með öðrum hætti en að skerða lífeyrisgreiðslur öryrkja um allt að 70 þúsund á mánuði. Ég hef þegar komið þessari afstöðu minni á framfæri við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna. Hef ég óskað eftir fundi með þeim til að fara yfir þessa stöðu og athuga hvort við getum ekki fundið ásættanlega niðurstöðu í þessu máli.“
Ávarp félagsmálaráðherra á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands