Hoppa yfir valmynd
8. október 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Flóttafólk frá Kólumbíu til Íslands

Þriðjudaginn 9. október koma 27 kólumbískir flóttamenn til landsins í boði íslenskra stjórnvalda. Alls taka stjórnvöld á móti 30 kólumbískum flóttamönnum í ár, en ein þriggja manna fjölskylda var áður komin til landsins. Um er að ræða konur og börn.

Flóttafólkið kemur hingað til lands frá Ekvador, en fólkið hafði flúið ofbeldi, stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu Kólumbíu. Vegna sérstakra aðstæðna fólksins í Ekvador fór Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fram á það við íslensk stjórnvöld að fólkinu yrði veitt hæli á Íslandi.

Flóttafólkið mun setjast að í Reykjavík og munu Reykjavíkurborg og Rauði krossinn sjá um móttöku þess. Flóttafólkið tekur þátt í sérstöku tólf mánaða aðlögunarverkefni sem felur meðal annars í sér að Reykjavíkurborg útvegar því húsnæði, félagslega ráðgjöf, og íslenskunám og samfélagsfræðslu. Börn og ungmenni munu sækja leik-, grunn- og framhaldsskóla í borginni. Börnin fá sérstakan stuðning í skólum og móðurmálskennslu.

Rauði krossinn útvegar fólkinu húsgögn og annað nauðsynlegt innbú. Fjölmargir stuðningsaðilar á vegum Rauða krossins munu aðstoða flóttafólkið við að tengjast samfélaginu og verða því innan handar með ýmislegt sem getur komið upp við aðlögun í nýju landi. Félagsmálaráðuneytið hefur heildarumsjón með verkefninu. Utanríkisráðuneytið ber kostnaðinn af aðlögunarverkefninu til eins árs.

Frá árinu 1996 hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 247 flóttamönnum í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinn og sveitarfélög í landinu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta