Um frávik í spám um hagvöxt og tekjur ríkissjóðs
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Mikil breyting hefur orðið á íslensku efnahagslífi undanfarin ár og hafa áætlanagerð og hagspár átt fullt í fangi með að endurspegla þá þróun.
Tvö vandamál, sem eru innbyrðis tengd, hafa verið nefnd í umræðunni. Annars vegar hafa hagspár greiningaraðila vanmetið hagvöxt, verðbólgu og viðskiptahalla undanfarin ár. Hins vegar hafa tekjuspár ríkissjóðs og sveitarfélaga vanmetið þær tekjur sem hafa skilað sér í kassann. Ástæðan er margþætt.
Íslenskt efnahagslíf hefur tekið stakkaskiptum undanfarin ár og sérstaklega má nefna öra þróun í fjármálastarfsemi og hækkun eignaverðs sem hafa aukið innlenda eftirspurn og ytra ójafnvægi. Í hinni nýju þjóðhagsspá kemur fram greining á þeirri eðlisbreytingu íslensks efnahagslífs sem hefur birst m.a. í snarauknum halla á þáttatekjum vegna eignamyndunar Íslendinga erlendis auk fleiri þátta.
Opinberar hagtölur hafa endurspeglað þessa þróun með tímatöf og oftar en ekki hafa fyrstu tölur Seðlabanka Íslands og Hagstofunnar tekið umtalsverðum breytingum við endurskoðun. Sú tímabundna skekkja hefur síðan haft bein áhrif á hagspár sem eru framkvæmdar á grundvelli talnanna. Þá eru reiknilíkönin byggð á hagmælingu á sögulegum orsakasamböndum, sem þarf að endurmeta ef hagkerfið tekur eðlisbreytingum.
Myndin sýnir að atvinnusköpun og virðisauka undanfarinna ára má í auknum mæli rekja til greina sem voru ekki eins áberandi í efnahagsstarfseminni áður á meðan aðrar greinar hafa látið undan síga. Fjármálaráðuneytið hefur hafið þróunarvinnu á reiknilíkönum og í hinni nýju þjóðhagsskýrslu er rammagrein um áhrif alþjóðavæðingar á innlenda eftirspurn þar sem leitast er við að skýra þá þætti sem breyst hafa í íslensku efnahagslífi.
Niðurstaðan er að hagkerfið er orðið fjölbreyttara og þróttmeira en áður þannig að eftirspurn og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum hefur orðið meira en reiknað var með, þrátt fyrir vaxandi hagsstjórnaraðhald. Í stuttu máli má rekja aukninguna til alþjóðlegrar þróunar sem birst hefur í hækkun tekna og atvinnustigs ásamt bættu aðgengi að ódýru fjármagni, en þeir þættir hafa skilað sér í hærra íbúðaverði og hlutabréfaverði sem hefur enn aukið eftirspurnina.
Aukinn hagvöxtur hefur síðan haft bein áhrif á tekjur hins opinbera. Mælingar sýna að tekjuteygni ríkissjóðs hefur aukist því meiri sem eftirspurn og viðskiptahalli hafa orðið. Þróunarvinna í ráðuneytinu á sviði ríkisfjármála er vel á veg komin við að skilgreina betur hagrænar forsendur einstakra tekjustofna, en markmiðið er að bæta tekjuspágerðina eins og framast er unnt.