Frumvarp til nýrra heildarlaga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla samþykkt í ríkisstjórn
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag frumvarp félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sem fer nú til umfjöllunar í þingflokkum stjórnmálaflokkanna. Um er að ræða ný heildarlög á þessu sviði og byggir frumvarpið í meginatriðum á störfum þverpólitískrar nefndar sem starfaði undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara.
Helstu nýmæli í frumvarpinu frá gildandi lögum eru eftirfarandi:
- Eftirlitsheimildir Jafnréttisstofu með framkvæmd laganna eru efldar og gerðar skýrari. Unnt er að fylgja þeim eftir með dagsektum í vissum tilvikum.
- Úrskurðir kærunefndar jafnréttismála eru bindandi fyrir málsaðila í stað álitsgerða í dag og ýmis nýmæli eru í frumvarpinu varðandi málsmeðferð fyrir kærunefnd.
- Lagt er til afnám samningsbundinnar skyldu til launaleyndar í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
- Lagt er til að samhliða jafnréttisáætlunum sem fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn er skylt að gera, verði jafnframt gerð framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur hvernig fyrirtæki hyggist framfylgja jafnréttisáætlun sinni.
- Lagt er til að innan sérhvers ráðuneytis starfi sérstakur jafnréttisfulltrúi sem hafi sérþekkingu á jafnréttismálum. Ljóst þykir að styrkja þurfi stöðu þessara fulltrúa.
- Lagt til að félagsmálaráðherra boði til sérstaks jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum til þess að hvetja til virkari umræðu um jafnréttismál meðal almennings og þar með á sem flestum sviðum samfélagsins.
Nefndin sem samdi frumvarpið í meginatriðum hafði það hlutverk að fara yfir efni gildandi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í mars síðastliðnum skilaði nefndin þáverandi félagsmálaráðherra drögum að frumvarpi sem sett var í opið umsagnarferli á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins þar sem almenningi gafst kostur á að senda inn athugasemdir við frumvarpsdrögin. Ákveðnar breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu drögum þar sem meðal annars var höfð hliðsjón af þeim umsögnum og athugasemdum sem bárust ráðuneytinu í gegnum heimasíðu félagsmálaráðuneytisins og með öðrum hætti.
Vefur um endurskoðun jafnréttislaga