Átak til atvinnusköpunar
Iðnaðarráðuneyti fréttatilkynning nr. 11/2007.
Iðnaðaráðuneytið auglýsir á morgun eftir umsóknum um styrki úr verkefninu Átak til atvinnusköpunar. Veittir eru styrkir til smærri viðfangsefna og vegna snjallra nýsköpunarhugmynda. Fimmtíu milljónir króna voru til ráðstöfunar á þessu ári en samkvæmt fjárlögum verður 75 milljónum króna úthlutað á næsta ári.
Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að "Átak til atvinnusköpunar" verði rekið með svipuðu sniði og undanfarin ár. Starfsreglur verða óbreyttar og verður stuðningur fyrst og fremst veittur verkefnum sem leitt geta til nýsköpunar í atvinnulífinu og falla ekki undir verksvið annarra sem veita sambærilega fyrirgreiðslu. Lögð er áhersla á að "Átak til atvinnusköpunar" verði kynnt á vettvangi atvinnuþróunarfélaganna í þeim tilgangi að það nýtist sem best þeim byggðarlögum sem orðið hafa fyrir áföllum vegna skertar aflaheimilda og byggðaröskunar.
Ráðuneytið hefur gert samning um rekstur "Átaks til atvinnusköpunar" við IMPRU - þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki - hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Reykjavík, 12. október 2007.