Greinargerð vegna Fjarðarárvirkjana
Fréttatilkynning iðnaðarráðuneyti nr. 10/2007
Þann 3. ágúst sl. fól iðnaðarráðherra Orkustofnun að kalla eftir skilum leyfishafa Fjarðarárvirkjana á öllum hönnunargögnum fyrir virkjanirnar í samræmi við ákvæði í reglugerð um framkvæmd raforkulaga. Tilefnið voru blaðaskrif um öryggi og umfang framkvæmdanna. Jafnframt óskaði iðnaðarráðherra eftir því við Orkustofnun að starfsmenn stofnunarinnar færu á vettvang til að skoða framkvæmdirnar, ræða við framkvæmdaraðila og fulltrúa sveitarstjórnar. Seyðisfjarðarbær gefur út leyfi vegna virkjananna og hefur eftirlit samkvæmt skipulag- og byggingarlögum. Eftir að athugun Orkustofnunar hófst óskaði ráðherra jafnframt sérstaklega eftir því að kannað yrði hvort stærð vatnshverfla væri í samræmi við útgefin virkjanaleyfi.
Orkustofnun hefur nú skilað iðnaðarráðherra greinargerð vegna Fjarðarárvirkjana. Stofnunin hefur fengið og skoðað öll hönnunargögn. Hún hefur jafnframt í höndum skriflega staðfestingu framleiðanda á að stærð hverfla sé í samræmi við ákvæði virkjunarleyfis. Það er mat stofnunarinnar að hönnunargögn uppfylli ákvæði reglugerðar þar að lútandi. Þá liggur fyrir að leyfishafi hefur gert nauðsynlegar endurbætur á þrýstivatnspípu sem upplýst var að hefði skemmst vegna rangra vinnubragða við lagningu hennar.
Í greinargerðinni kemur fram að Orkustofnun beindi því til hlutaðeigandi að leyfishafi uppfyllti ákvæði laga um að afla byggingarleyfa frá Seyðisfjarðarbæ fyrir öllum leyfisskyldum framkvæmdum. Jafnframt var þeim tilmælum beint til leyfishafa að hann geri bæjarfélaginu grein fyrir öllum fyrirhugðum breytingum á framkvæmdum, haldi jarðraski við lagningu þrýstivatnapípu í lágmarki og lagfæri land að framkvæmdum loknum. Ennfremur er upplýst í greinargerð stofnunarinnar sú ákvörðun Seyðisfjarðarbæjar að auka eftirlit sitt með framkvæmdinni.
Það er mat ráðuneytisins að gripið hafi verið til fullnægjandi aðgerða til að tryggja öryggi Fjarðarárvirkjana. Iðnaðarráðuneytið hefur lagt fyrir Orkustofnun að fylgjast áfram með framkvæmdunum í því skyni að tryggja öryggi virkjananna.
Reykjavík, 12. október 2007.
Fjarðarárvirkjanir (pdf skjal 805 Kbytes)
Fjarðarárvirkjanir vettvangsskoðun (pdf skjal 5205 Kbytes)