Frétti af Nóbelsverðlaunum á Umhverfisþingi
Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP), var staddur á Umhverfisþingi í gær þegar hann frétti að Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) og Al Gore hefðu hlotið friðarverðlaun Nóbels. IPCC er samstarfsverkefni UNEP og Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar.
Í frétt Fréttablaðsins í dag segir að Achim Steiner hafi fengið fregnina um friðarverðlaunin frá Magnúsi Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra umhverfisráðuneytisins. Í fréttinni er haft eftir Magnúsi að Achim Steiner hafi verið afkaplega kátur og átt síður en svo von á þessari niðurstöðu. Þá segir Magnús Jóhannesson að hann haldi að þetta muni beina athygli fólks meira að þessum vanda sem muni vega enn frekar að rótum friðar í heiminum ef ekkert verði að gert. Í frétt Fréttablaðsins er síðan haft eftir Achim Steinar: ,,Verðlaunin eru fyrst og fremst viðurkenning á baráttu Als Gore síðastliðin tuttugu ár. Hann hefur lagt sitt að mörkum við að upplýsa almenning um mjög flókin tæknileg atriði og að breyta umhverfisumræðunni. ... Fjöldi fólks sá heimildarmynd hans og hún var sýnd í skólum um allan heim. Hún er hluti af skilaboðum sem nú hafa öðlast viðurkenningu. Nú ríkir ekki lengur ágreiningur um vísindalegar staðreyndir málsins og öll ríki heims hafa gert sér grein fyrir hættum loftslagsbreytinga".
Achim Steiner flutti ávarp á umhverfisþingi og upptaka af því verður birt á heimasíðu umhverfisráðuneytisins innan skamms.
Sjá frétt UNEP um úthlutun friðarverðlauna Nóbels.
Mynd: Odd Stefan.