Hoppa yfir valmynd
18. október 2007 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landsambands smábátaeigenda 18. október 2007

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjallaði um niðurskurð þorskaflaheimilda, byggðakvóta, línuívilnun og fleira í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var á Grand Hóteli í dag.

 

Í umfjöllun um niðurskurð þorskafla á yfirstandandi fiskveiðiári fór ráðherra m.a. yfir helstu forsendurnar sem lágu til grundvallar ákvörðuninni og kvast jafnframt skilja að skiptar skoðanir væru um tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar. „Ég verð hins vegar að viðurkenna og segja hér hreinskilnislega að það stofnstærðarmat sem Landssamband smábátaeigenda leggur til grundvallar því að fara nær 100 þúsund tonnum fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar finnst mér afskaplega ótrúverðugt. Því þótt skekkja kunni að vera til staðar og sé sannarlega til staðar í stofnstærðarmatinu sjálfu, þá trúi ég því ekki að sú skekkja nemi slíku magni að það réttlæti að fara tæplega 100 þúsund tonnum fram úr ráðleggingum Hafrannsóknastofnunarinnar. Ég er því ósammála tillögu Landssambands smábátaeigenda. Reyndar höfðu allir aðrir hagsmunaaðilar hugmyndir um heildaraflamark sem var mun lægra og fól í sér niðurskurð sem um munaði í langflestum tilvikum.“

 

Um byggðakvótann sagði ráðherra að hann eigi að endurspegla betur breytingar sem verða í heildaraflamarki einstakra byggðarlaga t.d. við sölu eða kaup á kvóta og eðlilegt sé að stefna að því að byggðakvótinn renni til færri byggðalaga en nú sé. „Þetta mun auðvitað hafa röskun í för með sér. Það verða menn að gera sér ljóst. Mér finnst nefnilega eins og ýmsir líti þannig á að byggðakvótinn sé eins konar almenn uppbót á aflaheimildir manna. Sú er þó ekki hugsunin á bak við byggðakvótann. Hann á að þjóna tilteknum tilgangi. Ég tel að byggðakvótinn eigi ekki að vera stór og við eigum ekki að stefna að því að stækka hann frá því sem nú er. Það myndi síst af öllu leysa vanda heldur skapa ennþá fleiri vandamál en þau sem við glímum við um þessar mundir.“

 

Hvað snertir línuívilnun benti ráðherra á að hún dreifist víða um land en áhrifa hennar gæti markvissast og mest á þremur landsvæðum, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og Suðurnesjum. Því sé ósanngjörn sú gagnrýni að línuívilnun lýsi sérhagsmunapoti.

 

Ennfremur var fjallaði um vigtarreglugerð, slægingarstuðul og þýðingu smábátaútgerðar í landinu.

 

Ræða ráðherra í heild sinni

 

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 18. október 2007

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum