Jafnrétti skilar arði
Félagsmálaráðherra gerði grein fyrir fæðingarorlofslögunum á Íslandi og greindi frá þeirri stefnumótun ríkisstjórnarinnar að lengja fæðingarorlofið í áföngum á kjörtímabilinu. Markmið laganna er að tryggja samvistir barns við báða foreldra og auðvelda konum og körlum að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í ljósi þess að um 90% feðra nýta sér rétt til fæðingarorlofs og að meðaldagafjöldi þeirra er 97 dagar er óhætt að fullyrða að lögin hafa sannað gildi sitt. Aldrei áður hafa íslenskir feður verið jafn virkir í umgengni, umönnun og uppeldi ungra barna. Þátttaka íslenskra karla á sér engar hliðstæður, hvorki á Norðurlöndunum né í Evrópu. Stefan Wallin, jafnréttisráðherra Finnlands, telur niðurstöðu fundarins vera að íslenska leiðin, þ.e. að réttindi feðra séu bundin og óyfirfæranleg, sé mikilvæg til að auka þátttöku feðra.
Miklar umræður eru á Norðurlöndunum um aðgerðir til að fá feður til að taka fæðingarorlof. Lagabreytingar eru til athugunar og sérstakar aðgerðir með auglýsingum og fræðsluefni. Karita Bekkemellem, jafnréttisráðherra Noregs, upplýsti að hún væri á leið til Íslands til að heimsækja félagsmálaráðherra í næstu viku til að kynna sér nánar fæðingarorlofið og barnaverndarmál. Sérstaða Íslands er einnig varðandi fjármögnun og afgreiðslu fæðingarorlofsins. Á hinum Norðurlöndunum er ekki einn miðlægur Fæðingarorlofssjóður sem annast greiðslur og er fjármagnaður með framlögum frá öllum atvinnurekendum eins og hér á landi. Í Finnlandi, svo dæmi sé, tekið er það vinnuveitandinn sem greiðir orlofið og er kostnaður atvinnugreina af fæðingarorlofinu því afar mismunandi.
Ráðherrarnir voru sammála um að fæðingarorlofið á Norðurlöndunum væri til fyrirmyndar og til athugunar sé hvernig hægt væri að miðla reynslu þjóðanna á alþjóðavettvangi. Mikilvægt væri að gera sér ljóst að fæðingarorlofið yki samkeppnishæfni Norðurlandaþjóðanna í þeirri hnattvæðingu sem nú á sér stað.
Félagsmálaráðherra undirstrikaði mikilvægi samþættingar fjölskyldu- og atvinnulífs. Ráðherra benti á að mikil atvinnuþátttaka kvenna – sú hæsta í Evrópu eða um 80 % – á stóran þátt í góðum efnahag Íslands. Framlag kvenna er geysilega mikilvægt fyrir atvinnulífið og mun aukast enn frekar enda konur komnar í meirihluta á vissum sviðum framhaldsnáms á Íslandi. Markmið fyrirhugaðrar lengingar fæðingarorlofsins er að auka enn frekar hlut feðra í umönnun ungra barna. Ráðherra upplýsti einnig um fyrirhugaðar aðgerðir í jafnlaunamálum en fram kom að stöðnun hefur ríkt í þessum málum á Norðurlöndunum undanfarin 10–20 ár. Félagsmálaráðherra taldi gagnlegt að fjalla um kynbundinn launamun í norrænu samstarfi ráðherranna.
Skiptar skoðanir voru á fundinum um hvaða leiðir væru færar til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja, stofnana og ráðuneyta. Jóhanna Sigurðardóttir vísaði til stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og lýsti sérstökum áhuga á að fylgjast með brautryðjendastarfi Norðmanna varðandi kynjakvóta. Jafnréttisráðherrarnir samþykktu að setja á laggirnar viðamikið norrænt rannsóknarverkefni á næsta ári um kyn og völd.
Á fundinum kynnti Sólveig Bergmann, framkvæmdastjóri Norrænu rannsóknastofnunarinnar í kynjafræðum (NIKK), niðurstöður rannsóknar sem kynnt var í september síðastliðnum sem sýnir að fjöldi kvenna í stjórnum fyrirtækja í Finnlandi hefur áhrif á afkomu fyrirtækjanna. Rannsóknin sem unnin var á vegum Finnsku atvinnulífsnefndarinnar, EVA, sýnir að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla. Rannsóknin náði til 14.000 fyrirtækja, þ.e. allra fyrirtækja með fleiri en tíu starfsmenn.