Morgunverðarfundir um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 22/2007
Árið 2005 skipaði félagsmálaráðherra sjö manna verkefnisstjórn sem ætlað er að stýra fimm ára verkefni sem hefur það meginmarkmið að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði.
Eitt af því sem verkefninu er ætlað er að styrkja stöðu þeirra sem eru 50 ára og eldri með því að skapa jákvæða umræðu um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði. Markmiðið er m.a. að bæta ímynd þeirra með því að vekja athygli á kostum þeirra sem starfsmanna og móta farveg fyrir viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu.
Morgunverðarfundir verða haldnir á Grand Hóteli Reykjavík, Háteigi (salur á 4. hæð), þann 19. október, 2. nóvember og 15. nóvember 2007.
Dagskrá:
19. október kl. 8:30-10:00
- Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ávarpar fundargesti.
- Sigurður Jóhannesson hagfræðingur á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fjallar um samverkan launa- og lífeyristekna og hvort það sé þjóðhagslegur ávinningur af atvinnuþátttöku eldra fólks.
- Sigríður Lillý Baldursdóttir framkvæmdastjóri þróunarsviðs Tryggingastofnunar ríkisins fjallar um kostnað samfélagsins af því að missa fólk fyrr af vinnumarkaði út frá heilsufarslegum og félagslegum forsendum.
- Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fjallar um breytingar í mannfjöldaþróun næstu áratuga og áhrif breytinganna á íslenskan vinnumarkað.
2. nóvember kl. 8:30-10:00
- Emil B. Karlsson forstöðumaður Rannsóknarseturs verslunarinnar fjallar um rannsókn Rannsóknarsetursins á ávinningi fyrirtækja af atvinnuþátttöku eldra fólks.
- Guðríður H. Baldursdóttir starfsmannastjóri Kaupáss fjallar um möguleika og reynslu fyrirtækjanna af að ráða eldra fólk til starfa.
- Guðrún Stella Gissurardóttir forstöðumaður þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum, fjallar um mentora-hugmyndina - félagsvinakerfi - og möguleika fyrirtækjanna til að nýta sér hana.
15. nóvember kl. 8:30-10:00
- Sveinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri Starfsafls, starfsmenntar Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins, fjallar um Evrópuverkefni sem Starfsafl tekur þátt í og miðar að því að styrkja stöðu eldra fólks á vinnumarkaði.
- Séra Bernharður Guðmundsson fulltrúi Öldrunarráðs Íslands í norrænni nefnd - Ældre i arbejdslivet - fjallar um breytilegar þarfir og aðstæður fólks á vinnumarkaði.
- Halldóra Friðjónsdóttir formaður BHM og nefndarmaður í Verkefnisstjórn 50+ fjallar um erlend verkefni sem unnin hafa verið með þennan aldurshóp í fyrirtækjum.