Utanríkisráðherra sækir fund þróunarnefndar Alþjóðabankans
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 114/2007
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, verður í Washington D.C. dagana 19.-22. október nk. þar sem hún mun sitja fund þróunarnefndar Alþjóðabankans, en Ísland gegnir nú formennsku í kjördæmi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í bankanum.
Í tengslum við ofangreindan fund sækir utanríkisráðherra einnig sérstakan morgunverðarfund Alþjóðalánastofunarinnar (IFC) föstudaginn 19. október. Daginn eftir verður fundur ráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í kjördæminu til undirbúnings fundi þróunarnefndarinnar, sem haldinn verður á sunnudag. Þar mun utanríkisráðherra flytja ræðu fyrir hönd kjördæmisins. Á mánudeginum 22. október, situr ráðherra svo sameiginlegan ársfund Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá mun ráðherra einnig eiga tvíhliða fundi með tveimur af varaforsetum bankans og öðrum háttsettum embættismönnum.
Í þessari ferð mun utanríkisráðherra að auki funda með öldungardeildarþingmanninum Richard G. Lugar, sem er fulltrúi repúblíkana og situr í utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings. Hún mun einnig flytja ávarp fyrir konur sem hafa myndað sérstakan félagsskap um utanríkismál (Women´s Foreign Policy Group).