Ingibjörg Sólrún gerð að heiðursfélaga í samtökum bandarískra kvenna
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 116/2007
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ávarpaði á föstudagskvöld Women's Foreign Policy Group (WFPG) í Washington. Við sama tækifæri var ráðherrann gerð að heiðursfélaga í WFPG sem er öflugt tengslanet bandarískra kvenna sem starfa að alþjóðamálum. Fundurinn var fjölsóttur og viðstaddir voru m.a. sendiherrar og aðrir fulltrúar erlendra ríkja í Washington. Í ávarpi sínu talaði utanríkisráðherra um forsendur og mikilvægi pólitískra áhrifa kvenna á alþjóðavettvangi og lýsti því hvernig það tryggði betri árangur að flétta kynjapólitískri sýn inn í alþjóðastjórnmálin. Utanríkisráðherra svaraði fjölmörgum spurningum viðstaddra m.a. um framboð Íslands til öryggisráðsins, Kósóvó, Mið-Austurlönd, loftslagsmál, endurnýjanlega orkugjafa og sögu Kvennalistans á Íslandi.