Hoppa yfir valmynd
22. október 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra hvetur til samstarfs ríkja vegna aukinna siglinga í Norðurhöfum

Ráðherrar á fundi ESB um málefni hafsins.
Ráðherrar á fundi í Lissabon í Portúgal.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hvatti til samvinnu Evrópuríkja til að bregðast við breytingum sem verða vegna hlýnunar loftslags og minnkunar hafíss í Norðurhöfum á fundi evrópskra ráðherra um málefni hafsins í Lissabon í dag. Ráðherra vakti athygli á stórauknum sjóflutningum, m.a. á olíu, á Norðurslóðum, sem myndu enn aukast ef nýjar siglingaleiðir milli Evrópu og Asíu opnast fyrir alvöru vegna minnkunar hafíss og aukinnar hættu fyrir lífríki Norðurslóða af þeim sökum.

Ráðherrafundurinn var haldinn til að ræða tillögur um samræmda stefnumótun Evrópusambandsins í málefnum hafsins. Stefnumótun er hin fyrsta sinnar tegundar í ESB sem tekur til allra helstu mála sem snerta hafið, s.s. siglinga, fiskveiða og verndar hafs og stranda. Ísland sendi ítarlegar athugasemdir við drög að stefnumótuninni fyrr á árinu og var boðið að sækja fundinn í Lissabon ásamt Noregi, auk ráðherra ESB-landa.

Umhverfisráðherra fagnaði áformum ESB um að herða aðgerðir í baráttu við sjóræningjaveiðar og sagði að gera þyrfti skipum sem stunduðu slíkar veiðar ómögulegt að selja afla sinn. Styrkja þyrfti lagalegan grunn fyrir aðgerðir gegn slíkum skipum á úthafinu, í þeim tilvikum þegar fánaríki sinntu ekki skyldum sínum við að taka á sjóræningjaveiðum. Ísland vildi einnig vinna með ESB innan alþjóðastofnana og svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana að því að auðkenna og vernda viðkvæm vistkerfi á úthafinu fyrir skaðlegum veiðum. Setja þyrfti alþjóðlegar reglur sem bönnuðu niðurgreiðslur í sjávarútvegi sem væru skaðlegar umhverfinu.

Umhverfisráðherra gerði að umtalsefni þær breytingar sem eru að verða á Norðurslóðum með hlýnandi loftslagi, s.s. opnun nýrra siglingaleiða og auðveldari aðgang að náttúruauðlindum. Nú þegar væru umtalsverðir flutningar á olíu frá norðursvæðum Rússlands í hafinu nálægt Íslandi og spár bentu til að þessi flutningur muni kannski fimmfaldast fram til 2015. Ríki yrðu að geta brugðist við þessarri þróun með því að geta haft áhrif á siglingaleiðir þannig að flutningur á olíu og hættulegum efnum færi ekki um viðkvæm hafsvæði. Einnig þyrfti að efla viðbúnað við hugsanlegum mengunarslysum í Norðurhöfum og auka samvinnu um vöktun skipaumferðar og viðbrögð við slysum. Fréttir af óvenju mikilli hörfun hafíss á þessu ári sýndu að breytingar væru hugsanlega hraðari en menn hefðu talið til þessa. Auka þyrfti rannsóknir á samspili loftslagsbreytinga og hafsins, s.s. varðandi súrnun sjávar og áhrif hlýnunar á hafstrauma og lífríki.

Ráðherrar á fundi ESB um málefni hafsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta