Hoppa yfir valmynd
23. október 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þróun samneyslu hins opinbera

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. október 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Til að auka hagstjórnarlegt aðhald í uppsveiflunni hefur ríkissjóður verið rekinn á grundvelli viðmiða um vöxt útgjalda frá árinu 2003.

Útgjöld hins opinbera, þ.e. ríkis, almannatrygginga og sveitarfélaga, má flokka sem i) samneyslu, þ.e. útgjöld sem takmarkast við rekstur hins opinbera, ii) tilfærsluútgjöld, þ.e beinar peningalegar greiðslur til heimila, samtaka og fyrirtækja, iii) vaxtagjöld, þ.e. greiðslur vegna lána og iv) fjárfestingu, þ.e. útgjöld til stofnframkvæmda.

Í langtímaáætlun ríkissjóðs eru töluleg viðmið um að samneysla ríkissjóðs aukist ekki um meira en 2% að raungildi og tilfærsluútgjöld ríkissjóðs ekki um meira en 2,5% að raungildi að jafnaði. Engin viðmið hafa verið sett um vaxtagjöld eða útgjöld til fjárfestingar ríkissjóðs. Hins vegar er ljóst að vaxtagjöld hafa minnkað mikið undanfarin ár vegna ört minnkandi skulda ríkissjóðs. Á sama tíma hefur markvisst verið haldið aftur af framkvæmdum ríkissjóðs í ljósi umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda.

Undanfarin ár hefur vöxtur samneyslu ríkissjóðs verið nokkru yfir markmiði en gert er ráð fyrir að hún verði undir markmiðinu árið 2008 og verði þá 1,7%. Vöxtur samneyslu almannatrygginga hefur hins vegar verið nokkru meiri en ríkissjóðs undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að vöxtur samneyslu ríkissjóðs og almannatrygginga verði 1,9% árið 2008 og 2,6% árið 2009.

Samneysla sveitafélaganna undanfarin tvö ár hefur verið nokkru meiri en ríkissjóðs eða 5,2% árið 2005 og 6,3% árið 2006. Í spá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að raunvöxtur samneyslu sveitarfélaga fari minnkandi en verði nokkru meiri en ríkissjóðs næstu ár. Ólíkt ríkisstjórninni hafa sveitarfélögin ekki enn tekið upp fjármálareglu sem miðast við að takmarka samneysluútgjöldin og hafa þannig aðkomu að heildarhagstjórninni. Viðræður um það eru hins vegar í gangi milli ríkis og sveitarfélaga.


Raunvöxtur samneyslunar 2005-2009

Flokkur
2005
brb.
2006
brb.
2007
spá
2008
spá
2009
spá
Ríkissjóður og almannatryggingar
2,6
2,8
2,6
1,9
2,6
Sveitarfélög
5,2
6,3
3,2
2,8
2,5
Hið opinbera
3,5
3,9
2,8
2,0
2,5
Heimild: Hagstofa Íslands og spá ráðuneytisins

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta