Félagsmálaráðherra ávarpar ráðstefnuna „Hvaðan kemur hræðslan við jafnrétti?“
Háskóli Íslands í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar, atvinnuþróunarfélög og tengslanet kvenna á landsbyggðinni efndu í tilefni af kvennadeginum 24. október til jafnréttisráðstefnu undir yfirskriftinni „Hvaðan kemur hræðslan við jafnrétti?“ Félagsmálaráðherra ávarpaði ráðstefnuna sem haldin var í Keili á Reykjanesi og jafnframt send beint út á netinu.
Í ávarpinu sagði félagsmálaráðherra meðal annars þetta:
„Eftirfarandi rök hafa verið færð fram í skýrslu nefndar iðnaðar- og viðskiptaráðherra um aukinn hlut kvenna í yfirstjórnum fyrirtækja:
Þar segir orðrétt: „Helstu rökin fyrir því að fjölga eigi konum í stjórn fyrirtækja eru þau að ávinningur sé af fjölbreytileika, ákvarðanir stjórna taki meira mið af markaðinum og það að virkja konur í yfirstjórnir fyrirtækja hagnýti hæfni og þekkingu sem fyrirtæki myndu ellegar fara á mis við. Enn fremur hefur verið sýnt fram á tengsl milli fjölda kvenna í stjórnum og bættra stjórnarhátta, og bent hefur verið á að fjölgun kvenna í lykil- og valdastöðum auki líkur á að viðskiptalífið byggi á gildum og viðhorfum beggja kynja og sé því líklegra til að njóta krafta og hæfni starfskrafta af báðum kynjum.“
Þurfum við frekari rökstuðnings við? Ég segi nei og ég spyr hvað hluthafar sem ekki byggja á þessum sjónarmiðum séu eiginlega að hugsa? Dettur nokkrum lifandi manni í hug að 3% hlutfall kvenna í stjórnum 100 stærstu fyrirtækjanna hér á landi byggi á þeirri staðreynd að karlarnir séu svo miklu hæfari? Karlar sem hafa notið sambærilegrar menntunar og konur. Nei, það dettur ekki nokkrum manni í hug að halda því fram. Að baki þessari staðreynd liggur allt annað, kannski hræðslan við jafnrétti.
Ávarp félagsmálaráðherra á ráðstefnunni „Hvaðan kemur hræðslan við jafnrétti?“