Hoppa yfir valmynd
25. október 2007 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna

Á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna sem hófst í dag fjallaði Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meðal annars um gengismál og forsendur ákvörðunar sinnar að minnka þorskafla um þriðjung.

 

Ráðherra gerði ítarlega grein fyrir þeim forsendum sem lágu til grundvallar aflaákvörðuninni fyrir nýhafið fiskveiðiár og þeirri viðamiklu og vönduðu vinnu sem þar lá að baki. Hafrannsóknastofnunin hafi kveikt viðvörunarljós með ástandsskýrslu sinni í fyrra. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mæti áhrif þess að breyta veiðireglunni. Þegar svo tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar hafi legið fyrir í byrjun síðasta sumars og niðurstöður Hagfræðistofnunar H.Í. hafi verið rætt við fjölmarga hagsmunaaðila og vísindamenn víða að. Niðurstaðan sé öllum kunn en fleiri möguleikar hafi verið í stöðunni. „Þegar við veltum þessum kostum fyrir okkur þá þarf líka að hafa hugfast hver Hafrannsóknastofnunin telur að þróunin verði á næstu árum. Það þurfum við að gera af mörgum ástæðum, m.a. þeim að þær upplýsingar verða lagðar til grundvallar veiðiráðgjöf komandi ára. Veiðistofninn nú er talinn vera um 650 þúsund tonn og á næsta ári er hann áætlaður 570 þúsund tonn eða 80 þúsund tonnum minni en nú. Þess vegna eru því allar líkur á því að við þær aðstæður gerði Hafrannsóknastofnunin tillögur um frekari niðurskurð aflaheimilda á næsta ári. Ég tel að slík staða yrði afar dýrkeypt í íslenskum sjávarútvegi. Það skiptir því miklu máli að afstýra slíku ástandi.

Mér er það mætavel ljóst að sá mikli niðurskurður sem við höfum mátt búa við árlega undanfarin ár er mjög farinn að reyna á þolrif íslenskrar útgerðar og þeirra sem starfa í sjávarútvegi. Frekari niðurskurður og áframhald á þessari þróun myndi því draga mjög úr þreki manna í greininni og gæti stuðlað að mikilli samþjöppun og flótta úr henni. Það var ekki síst þetta atriði sem að ég hafði til hliðsjónar þegar ég var að skoða þessi mál. Að mínu mati komu því tvær leiðir til greina. Annars vegar tillaga Hafrannsóknastofnunarinnar upp á 130 þúsund tonn og hins vegar tillaga sem byggðist á hugmyndum aflareglunefndar frá árinu 2004. Sú leið  fól  í sér 18% veiðihlutfall vegna stöðu þorskstofnsins, sem með sveiflujöfnun hefði þýtt 155 þúsund tonn.

Þegar ég fór í saumana á þessu reyndi ég eftir því sem unnt var að setja mér tiltekin markmið sem ég vildi hafa að leiðarljósi. Í fyrsta lagi vildi ég auðvitað ganga þannig frá málum að hægt væri að segja með sanni að gætt væri ábyrgðar og varúðar. Í annan stað lagði ég áherslu á að ljúka þessu þannig að ekki þyrfti að skerða afla á næsta ári. Þá lagði ég til grundvallar þá forsendu að líklegt væri að kvótinn gæti aukist í framhaldinu.“

 

Um afleiðingar aflasamdráttarins sagði ráðherra meðal annars: Við höfum nú þegar séð afleiðingar hins mikla aflasamdráttar en þó einungis að nokkru leiti. Mér er það ljóst að sjávarútvegurinn fer nú  skjótar í ýmsar hagræðingaraðgerðir en ella hefði verið. Sumt af því sem menn hafa gert og munu gera hefði örugglega komið til framkvæmda fyrr en síðar. Einfaldlega vegna þess að rekstrarleg rök hníga að því. Minni tekjur nú gera það hins vegar að verkum að gengið er hraðar til verks. Það er því ljóst að framundan er enn meiri hagræðing innan sjávarútvegsins sem getur orðið sársaukafull en mun líka gera það að verkum að greinin verður öflugri þegar fram í sækir.

 

Um gengismál sagði ráðherra mikinn styrk krónunnar skapa óviðunandi ástand fyrir útflutningsgreinarnar. Frá áramótum hafi krónan styrkst að meðaltali um tæplega 10% gagnvart öðrum gjaldmiðlum. „Almennt talað má segja að íslenska krónan hafi styrkst svo mikið gagnvart öðrum myntum sem raun ber vitni, vegna þess að Seðlabankinn heldur uppi hinum háu vöxtum. Þeir laða að erlent fjármagn sem veðjar á íslensku krónuna. Þetta er auðvitað ansi valt ástand og hefur valdið okkur miklum vanda.

Seðlabankinn heldur uppi vöxtum sínum m.a. til þess að berja niður verðbólgu. Það var því athyglisvert þegar sjá mátti fyrr í mánuðinum að verðbólga hér á landi, mæld á samræmdan mælikvarða Evrópusambandsins, er sú sama og gerist og gengur í Evrulandinu, þar sem vextirnir eru þó miklu lægri, eins og frægt er orðið.

Við glímum hins vegar við verðbólgu sem stafar einkanlega  af  hækkun húsnæðisverðs. Þessi hækkun kemur því beint í bak útflutningsgreinanna, veikir stöðu þeirra  og stuðlar m.a. að því að störfum hefur fækkað á því sviði. Þetta er að mínu mati mjög mikið umhugsunarefni og við hljótum að velta því alvarlega fyrir okkur hvort þeir mælikvarðar sem lagðir eru til grundvallar okkar hagstjórn séu að öllu leyti réttir. Athyglisvert er líka að skoðaHHHHvers þær forsendur sem Samtök atvinnulífsins hafa sett fram um þróun ýmissa hagstærða hér innanlands og ekki verður betur séð en að stangist mjög á við þær forsendur sem unnið er eftir á öðrum sviðum.

 

Enn fremur fjallaði ráðherra um stöðu deilistofna og samninga þar að lútandi.

 

Ræðan í heild sinni.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 25. október 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum