Fundur forsætisráðherra með Romano Prodi forsætisráðherra Ítalíu
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, átti í dag fund í Róm með Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu. Þar var fjallað um tvíhliða samskipti Íslands og Ítalíu, málefni Sameinuðu þjóðanna og svæðisbundin mál.
Hvað varðar tvíhliða samskiptin ræddu forsætisráðherrarnir um fullgildingu tvísköttunarsamnings Íslands og Ítalíu, hugsanlega stofnun ítalsks sendiráðs í Reykjavík, ákvörðun íslenskra stjórnvalda um stuðning við íslenskukennslu við háskólann í Róm og framboð ríkjanna til ýmissa stofnana og verkefna, þ.á m. framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Forsætisráðherra lýsti sérstakri ánægju með stuðning Ítalíu. Þá þakkaði forsætisráðherra stuðning Ítalíu við samþykkt Atlantshafsbandalagsins um tilhögun lofthelgiseftirlits á Íslandi og óskaði eftir frekara samstarfi við framkvæmd þess.
Í almennum skoðanaskiptum um málefni Sameinuðu þjóðanna voru þeir sammála um brýna nauðsyn umbóta innan samtakanna, einkum í skipan og hlutverki öryggisráðsins, og staðfestu sameiginlegan flutning á ályktunartillögu í allsherjarþinginu um stöðvun dauðarefsinga.
Viðræður forsætisráðherranna um svæðisbundin mál snérust aðallega um þróunina innan Evrópusambandsins í kjölfar nýlegs leiðtogafundar í Lissabon og um ástand og horfur í Afganistan og Kosóvó.
Reykjavík 26. október 2007