Hoppa yfir valmynd
26. október 2007 Matvælaráðuneytið

Iðnaðarráðherra fundaði með forseta Filippseyja

Iðnaðarráðuneyti Fréttatilkynning Nr. 13/2007

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, átti í dag fund með Gloriu Arrayo í Malcanang forsetahöllinni í Manilla, ásamt Angelo T. Reyes orkumálaráðherra Filippseyja og yfirmönnum filippeyska ríkisorkufyrirtækisins.

Á fundinum lýsti forseti Filippseyja ánægju með vilja Íslendinga til að taka þátt í uppbyggingu jarðgufuvirkjana á Filippseyjum í formi fjárfestinga og þekkingarframlags, en miklir möguleikar eru á frekari nýtingu jarðhita í landinu.

Filippeysk stjórnvöld hafa ákveðið að markaðsvæða ríkisorkufyrirtæki landsins, þar á meðal jarðgufuvirkjanir, og bæði forsetinn og filippseyski orkumálaráðherran hvöttu Íslendinga til að taka þátt í því ferli.

Forsetinn lýsti jafnframt mikilli ánægju með Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi og mikilvægi hans fyrir menntun margra filippseyskra jarðhitavísindamanna. Hún og iðnaðarráðherra ræddu meðal annars möguleika á því að efla skólann, og veita ungum og efnilegum jarðvísindamönnum frá Filippseyjum, færi á lengra námi við skólann, sem leiddi til meistaragráðu eða doktorsgráðu við íslenska háskóla. Iðnaðarráðherra kynnti forsetanum meðal annars hugmyndir um að halda á næstu árum sérstök sumarnámskeið á vegum Jarðhitaskólans í Suðaustur-Asíu sem yrðu opin efnilegum asískum vísindamönnum á sviði jarðhita.

Fyrir fundinn með forseta Filippseyja átti Össur Skarphéðinsson sérstakan fund með Angelo T. Reyes, orkumálaráðherra, þar sem rætt var um frekara samstarf milli þjóðanna á sviði jarðhitavinnslu, og ræddi Reyes ráðherra meðal annars möguleika á aðstoð Íslendinga við að byggja upp háskólanám í jarðhitafræðum á Filippseyjum.

Á tveimur myndanna hér að neðan eru Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra ásamt Gloriu Arayo í forsetahöllinni í Manilla á fundi í dag. Á þriðju myndinni eru Þórður Ægir Óskarsson, sendiherra Íslands í Japan og á Filippseyjum, Angelo T. Reyes, orkumálaráðherra Filippseyja, og Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður REI, að búa sig til að heilsa forsetanum í upphafi fundar.

Reykjavík, 26. október 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta