Samningur undirritaður um þjónustu við flóttafólk
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í morgun samning milli ráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um móttöku og þjónustu við flóttafólk. Samningurinn felur í sér fjölþætta aðstoð, ráðgjöf og ýmsa þjónustu við flóttafólkið á fyrsta dvalarári þess hér á landi. Fjármögnun verkefnisins kemur frá utanríkisráðuneyti. Miðað er við að fólkið fái íslenskukennslu og samfélagsfræðslu á fyrstu mánuðum verkefnisins og fari síðan út í atvinnulífið eða stundi nám og börnin hefji nám í viðeigandi skólum. Fólkið er komið til landsins, alls 30 manns. Börnin eru byrjuð í skólum og mæðurnar stunda nám af kappi.
Þetta er í annað sinn sem félagsmálaráðuneytið gerir samning við Reykjavíkurborg um móttöku flóttafólks, sá fyrri var gerður 2005. Í ár eins og fyrir tveimur árum er um að ræða einstæðar mæður og börn þeirra sem hafa lent í hrakningum vegna ástandsins í heimalandinu Kólumbíu.