Hoppa yfir valmynd
27. október 2007 Innviðaráðuneytið

Samgönguráðherra afhenti stálstýrið

Bandalag íslenskra bílablaðamanna veitti í gær viðurkenninguna ,,Bíll ársins 2008? en nafnbótina hlaut Land Rover Freelandar. Kristján L. Möller samgönguráðherra afhenti verðlaunagripinn, stálstýrið, í athöfn sem fram fór í safni Ásmundar Sveinssonar við Sigtún.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að Freelander sé nýtt afbrigði, hálfjeppi með mikinn búnað og góðan frágang og fjöðrun og bremsukerfi væru í sérflokki. Andrés Jónsson, kynningarstjóri umboðsins, B&L, tók við stálstýrinu hjá ráðherra og lýsti þakklæti fyrir hönd umboðsins.

Skoda Roomster sigraði í flokki smábíla, Subaru Impreza í flokki millistærðarbíla, í flokki stórra bíla og lúxusbíla Mercedes-Benz C-lína og í flokki jeppa, jepplinga og pallbíla Land Rover Freelander. Einkunnir eru gefnar út frá hönnun, aksturseiginleikum, rými, öryggi og verði.

Í ávarpi sínu við afhendingu verðlaunanna sagði Kristján L . Möller meðal annars að bíllinn væri löngu orðinn þarfasti þjóninn og léki stórt hlutverk í daglegu lífi. Hann væri ein mesta fjárfesting manna þegar reiknuð væru saman öll bílakaup ævinnar. ,,Við förum yfirleitt fyrstu ferð ævinnar í bíl og jafnvel líka þá síðustu,“ sagði hann einnig. Samgönguráðherra vék að umferðarþunganum og sagði meðal annars: ,,Bíllinn og allt sem honum tilheyrir er líka fyrirferðarmikill hjá yfirvöldum hvort sem eru sveitastjórnir eða ríkið. Við þurfum að gera ráð fyrir plássi, bíllinn þarf götur og vegi og fleiri bílar og aukin umferð kalla á sífellt fleiri mannvirki. Á höfuðborgarsvæðinu finnum við æ meira fyrir umferðarþunga þegar við sitjum í umferðarhnútum og bíðum eftir grænu ljósi. Á ferð um landið finnum við líka æ meira fyrir aukinni umferð og álagi á vegakerfið.“

Samgönguráðherra sagði að bregðast yrði við þessu ástandi og minnti á að ríkisstjórnin myndi leggja aukið fjármagn í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. ,,Ég nefni Sundabraut, nokkur mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, breikkun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar, jarðgöng á Austfjörðum, Norðurlandi og Vestfjörðum. Allt þetta er komið á dagskrá, sum verkin eru þegar hafin en önnur í undirbúningi. Og allt er þetta gert til að auka afköst og bæta öryggi í umferðinni.“

Í lok ávarpsins sagði samgönguráðherra: ,,Við erum hingað komin til að fagna og dást að góðum gripum. Þið hafið valið einn úr hópnum sem þykir öðrum fremri í dag. Hinir fylgja fast á eftir. Þetta er skemmtileg tilbreyting við vandamálaumræðuna og styrkir okkur bílaáhugamenn í þessu áhugamáli okkar – við getum alveg leyft okkur að vera strákar og stelpur í bílaleik fram eftir öllum aldri. Við látum engan taka það frá okkur að það er alltaf gaman að keyra góða bíla. Ég vil að lokum óska handhafa bíls ársins til hamingju með titilinn.“

       
 
     

     
       


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum