Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda í Osló
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 121/2007
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, tók í morgun þátt í fundum utanríkis- og utanríkisviðskiptaráðherra Norðurlanda í Osló í tengslum við þing Norðurlandaráðs.
Á fundi utanríkisviðskiptaráðherranna var m.a. fjallað um Alþjóðaviðskiptastofnunina, OECD, norrænan innri markað, Evrópska efnahagssvæðið og framtíðarstefnu Evrópusambandsins í sjóflutningum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði framsögu um nýsköpun og samkeppnishæfni í viðskiptum með tilliti til Norðurlanda og Evrópu.
Utanríkisráðherrar Norðurlanda fjölluðu um starfsemi svæðisstofnanna á norðurslóðum, Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Heimskautaráðið og frekari þróun hins nána samstarfs Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Einnig var rætt um samstarf Norðurlandanna í loftslags- og orkumálum og helstu alþjóðamál. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skýrði frá stöðu framboðs Íslands til öryggisráðsins og afstöðu Íslands til umbótaferlis Sameinuðu þjóðanna.
Ráðherrarnir sátu síðan hádegisverðarfund með forsætisnefnd Norðurlandaráðs þar sem skipt var á skoðunum um fyrrnefnd málefni. Þá átti ráðherra sérstakan fund með Vestnorræna ráðinu.
Síðdegis tók utanríkisráðherra þátt í opnum almennum fundi sem boðaður var með utanríkisráðherrum Norðurlandanna til að fjalla um hlutverk og stöðu ríkjanna í hnattvæðingunni.