Hoppa yfir valmynd
31. október 2007 Matvælaráðuneytið

Ráðstefna í Portúgal um aðgerðir gegn ólöglegum fiskveiðum

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneyti

Ráðstefna í Portúgal um aðgerðir gegn ólöglegum fiskveiðum

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók síðastliðinn mánudag þátt í ráðstefnu um aðgerðir gegn ólöglegum fiskveiðum. Það var Evrópusambandið og stjórnvöld í Portúgal, sem fara nú með forsæti í ESB, sem buðu til ráðstefnunnar og fór hún fram í Lissabon. Alls voru á ráðstefnunni fulltrúar vel á fjórða tug ríkja og fóru sjávarútvegsráðherrar viðkomandi landa fyrir meirihluta sendinefndanna.

 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nýlega lagt fram tillögu um aðgerðir sambandsins gegn ólöglegum fiskveiðum og voru hugmyndir framkvæmdastjórnarinnar kynntar og ræddar. Byggja þær á þeim aðgerðum sem þegar hafa verið samþykktar á ýmsum svæðisbundnum vettvangi og miða að því að nýta á breiðari grundvelli þau tæki sem þegar hafa skilað árangri sem sértækar aðgerðir. Þannig stendur m.a. til að beita víðar viðskiptaaðgerðum sem undanfarin ár hefur verið beint að ríkjum sem ekki hafa uppfyllt skyldur sínar sem fánaríki í túnfiskveiðum. Áhersla er lögð á að hindra að afurðir ólöglegra veiða komist á markaði innan ESB, án þess að hafa neikvæð áhrif á verslun með löglegar afurðir.

 

Einar K. Guðfinnsson benti á að þegar hefði umtalsverður árangur náðst í Norður-Atlantshafi. Samstarf þjóðanna þar, bæði sín á milli og við fjarlægari þjóðir, hefði m.a. orðið til þess að í ár hefðu engin ólögleg skip stundað karfaveiðar á Reykjaneshrygg. Er það í fyrsta skipti í fjölda ára sem engin slík skip taka þátt í karfaveiðunum. Rakti Einar það starf sem unnið hefur verið í þessu sambandi, ekki síst innan Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Í því sambandi er rétt að benda á samstarf um eftirlit á hafi, bann við því að skip sem staðfest er að hafi stundað eða stutt við ólöglegar veiðar komi til hafna í aðildarríkjunum og aukið eftirlit með löndun frystra afurða úr erlendum skipum.

 

Einar sagði að mikið væri hægt að læra af því sem þegar hefði skilað árangri, en lagði áherslu á að því færi fjarri að endanlegur sigur hefði unnist í þessum málaflokki í Norður-Atlantshafi eða annars staðar. Því væri mikilvægt að halda vinnunni áfram og leita áfram nýrra leiða í þessu sambandi. Benti hann á að frammistaða fánaríkja væri mikilvægt mál. Sú vinna sem fiskimálanefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunnar S.þ. (FAO) hefði ákveðið að setja í gang varðandi viðmið um frammistöðu fánaríkja gæti skapað góðan grundvöll fyrir aðgerðir gegn óábyrgum fánaríkjum og skipum sem sigla undir fána þeirra.

 

Á ráðstefnunni var einnig fjallað um það vandamál sem ýmis þróunarríki standa frammi fyrir varðandi ólöglegar veiðar, sem í mörgum tilfellum stafar af lítilli getu þeirra til að hindra þær innan lögsagna sinna.

 

Sú góða þátttaka sem var á ráðstefnunni og sá samhljómur sem þar var varðandi mikilvægi baráttunnar gegn ólöglegum veiðum er gott dæmi um hina auknu pólitísku áherslu á þennan  málaflokk undanfarin ár. Almennur skilningur er orðinn á því að ólöglegar fiskveiðar grafi undan fiskveiðistjórnun, bæði undan vernd fiskistofna og löglegum og ábyrgum sjávarútvegi sem atvinnugrein og undirstöðu samfélaga.

 

Þátttakendur á ráðstefnunni voru sammála um að sá árangur sem náðst hefði undanfarin misseri í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum væri umtalsverður og fyllti menn bjartsýni um að raunhæft væri að halda áfram að bæta ástandið á komandi árum. Í þeim tilgangi bæri að efla samstarf ríkja enn frekar og nota víðar þau tæki sem þegar hafa skilað árangri á sumum svæðum.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu 31. október 2007

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta