Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntamálaráðherra sótti aðalráðstefnu UNESCO í París

34. aðalráðstefna UNESCO var haldin í París dagana 16. október til 2. nóvember 2007. Megin efni ráðstefnunnar var að fjalla um og samþykkja nýja 6 ára áætlun fyrir stofnunina svo og verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir tvíærið 2008-2009. Regluleg fjárlög stofnunarinnar fyrir þetta tvíæri verða 631 milljón dollara. Framlag Íslands nemur 0.037%.

34. aðalráðstefna UNESCO var haldin í París dagana 16. október til 2. nóvember 2007. Megin efni ráðstefnunnar var að fjalla um og samþykkja nýja 6 ára áætlun fyrir stofnunina svo og verkefna- og fjárhagsáætlun fyrir tvíærið 2008-2009. Regluleg fjárlög stofnunarinnar fyrir þetta tvíæri verða 631 milljón dollara. Framlag Íslands nemur 0.037%.

Menntamálaráðherra ávarpaði ráðstefnufulltrúa þann 20. október. Í ræðu sinni lagði ráðherra áherslu á mikilvægi UNESCO til að leysa hin mörgu verkefni sem aukin hnattvæðing og tæknibreytingar hafa í för með sér. Greindi ráðherra frá því hvernig almenn lestrarkunnátta og góð grunnmenntun hafi fleygt íslensku þjóðinni úr fábreyttu samfélagi í fremstu röð velferðarþjóðfélaga á minna en einni öld. Lagði ráðherra áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld fjárfestu í menntun og rannsóknum til að styrkja undirstöðu og innviði samfélagsins. Lýsti ráðherra áhyggjum sínum hversu hægt gengi að ná Dakar-markmiðunum um menntun fyrir alla fyrir árið 2015.

„Menntun er mannréttindi og engan má svipta þessum grundvallarrétti“ sagði ráðherra og undirstrikaði að alþjóðasamfélagið hafi falið UNESCO forystu á sviði menntamála. Ráðherrann vék einnig að mikilvægi vatnsins fyrir lífið á jörðinni og hvatti til þess að UNESCO efldi enn frekar starf sitt á þessum vettvangi ásamt því að huga enn frekar að endurnýjanlegum orkugjöfum. Ekki síst lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi tungumála í menningarlegri fjölbreytni og fagnaði því að UNESCO ynni að sérstöku þverfaglegu verkefni um tungumál.

Föstudaginn 19. október tók menntamála­ráðherra þátt í hringborðsumræðum á fundi menntamálaráðherra þar sem tengsl menntunar og efnahagslegra framfara voru til umræðu. Þá átti hún fund með Koïchiro Matsuura aðalframkvæmdastjóra UNESCO þar sem meðal annars voru ræddar tilnefningar Íslands á heimsminjaskrá UNESCO.

Nefndarmenn í íslensku UNESCO-nefndinni sóttu fundi á sínu fræðasviði: fjölmiðla-, menningar-, mennta- og vísindamálum og fulltrúinn í nefndinni um málefni ungs fólks sótti ungmennaþing sem haldið var dagana á undan aðalráðstefnunni. Auk þess voru ýmsir aðrir fundir sóttir af formanni og ritara nefndarinnar. Á næstunni mun íslenska UNESCO-nefndin bjóða til upplýsingarfundar til að greina frá aðalráðstefnunni og verkefnum UNESCO næstu árin.

Af hálfu Íslands sóttu eftirfarandi ráðstefnuna:

  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
  • Tómas Ingi Olrich, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá UNESCO
  • Guðný Helgadóttir, formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar
  • Finnbogi Rútur Arnarson, sendifulltrúi og varafastafulltrúi Íslands hjá UNESCO
  • Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra
  • Elín Flygenring, fulltrúi utanríkisráðuneytisins í íslensku UNESCO-nefndinni
  • Einar Hreinsson, ritari íslensku UNESCO- nefndarinnar
  • Einar Þór Hafberg, fulltrúi fyrir ungt fólk í íslensku UNESCO-nefndinni
  • Þórir Ólafsson, fulltrúi fyrir menntamál í íslensku UNESCO-nefndinni
  • Hafliði Pétur Gíslason, fulltrúi fyrir vísindamál í íslensku UNESCO-nefndinni
  • Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fulltrúi fyrir fjölmiðlamál í íslensku UNESCO-nefndinni



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta