Undirritun upplýsingaskiptasamnings við Mön
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 1. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Undirritaður hefur verið samningur milli Íslands og eyjunnar Mön í Írlandshafi, um upplýsingaskipti á sviði skattamála.
Auk samnings um upplýsingaskipti voru undirritaðir þrír samningar sem taka til afmarkaðra tekna; samningur um að komast hjá tvöfaldri skattlagningu á tekjur einstaklinga, samningur um skattlagningu tekna af rekstri skipa og flugvéla og samningur um aðferðir við ákvörðun hagnaðar tengdra fyrirtækja.
Á sama tíma undirrituðu öll Norðurlöndin auk Færeyja og Grænlands, samskonar tvíhliða samninga. Samningarnir eru afrakstur samvinnu landanna og nýtur verkefnið fjárhagsstuðnings frá Norrænu ráðherranefndinni. Tilgangur verkefnisins er að ná samningum við þau lögsagnarumdæmi sem hafa með sérstöku samkomulagi við OECD, skuldbundið sig til að mæta kröfum stofnunarinnar um gegnsæi og upplýsingaskipti á sviði skattamála.
Stjórnvöld á Mön hafa gengið hvað lengst fram í hópi þeirra þjóða, sem undirritað hafa yfirlýsingar um gerð upplýsingaskiptasamninga, að sýna fram á samstarfsvilja á þessum vettvangi. Sú aðferð Norðurlandanna að vinna að þessu verkefni í sameiginlegri samninganefnd er vinnusparandi og gefur verkefninu aukið vægi. Auk Manar, er í þessarri samningalotu Norðurlandanna stefnt að gerð samninga við Guernsey, Jersey, Gíbraltar, Arúba, Bermúda, Bresku Jómfrúreyjar, Cayman eyjar og Hollensku Antillaeyjar.
Upplýsingaskiptasamningurinn við Mön mun gera skattyfirvöldum kleift að óska eftir upplýsingum um skattskyldar tekjur einstakra íslenskra aðila á Mön í samræmi við tekjuskattslög.
- Agreement between Iceland and The Isle of Man (PDF 44 KB), íslensk þýðing væntanleg