Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vífilsstaðavatn í Garðabæ friðlýst

Við undirritun friðlýsingar Vífilsstaðavatns.
Vífilsstaðavatn friðlýst

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur undirritað friðlýsingu Vífilsstaðavatns og nágrennis í Garðabæ, sem friðlands. Markmiðið með friðlýsingunni er að friða og vernda vatnið, lífríki þess og nánasta umhverfi ásamt því að treysta svæðið sem útivistarsvæði.

Svæðið sem friðlýsingin nær yfir er 188 hektarar að stærð og þar af er vatnið sjálft 27 hektarar. Svæðið er í eigu Garðabæjar. Friðlýsingin tekur til Vífilsstaðavatns og hlíðanna að sunnan- og austanverðu upp frá vatninu að meðtöldu Grunnavatnsskarði.

Lífríki Vífilsstaðavatns hefur verið rannsakað um ára skeið. Þar eru sérstæðir stofnar bleikju, urriða, áls og hornsíla. Óvenjuleg blanda glerála frá Ameríku og Evrópu gengur upp Vífilsstaðalæk í Vífilsstaðavatn. Hornsílin í vatninu eru heimsfræg, en þau eru sérstök að því leyti að þau skortir kviðgadda. Hornsílin í Vífilsstaðavatni hafa komið við sögu í rannsóknum vísindamanna á Íslandi og í Bandaríkjunum á sviði þróunar- og erfðafræði.

Eftir að friðlýsingin hefur verið undirrituð er óheimilt að spilla náttúrulegu gróðurfari, hrófla við jarðmyndunum og náttúruminjum í friðlandinu og trufla þar dýralíf. Mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi verða óheimilar nema með leyfi Umhverfisstofnunar og bæjarstjórnar Garðabæjar.

Umferð vélknúinna ökutækja verður bönnuð á friðlandinu nema vegna þjónustu við það. Heimilt verður að fara á reiðhjólum um svæðið eftir vegum og stígum. Stangveiði verður áfram heimil í vatninu einsog verið hefur yfir sumartímann.

Einnig má lesa um friðlýsinguna á heimasíðu Garðabæjar.

Friðlýst svæði við Vífilsstaðavatn



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta