Forsætisráðherra skipar nefnd um ímynd Íslands
Forsætisráðherra hefur skipað nefnd til að gera tillögur um hvernig megi styrkja ímynd Íslands. Helstu hlutverk nefndarinnar eru að gera úttekt á skipan ímyndarmála Íslands í dag, móta stefnu Íslands í þessum málaflokki og leggja fram tillögur að skipulagi ímyndarmála og aðgerðum til að styrkja ímynd Íslands. Nefndin er hvött til að leita ráðgjafar hjá aðilum í atvinnu- og menningarlífi sem hafa með ímyndarmál Íslands að gera. Jafnframt er nefndin hvött til að kynna sér nýjar leiðir í þessum málum í öðrum löndum. Nefndin skal skila tillögum til forsætisráðherra eigi síðar en 1. mars 2008.
Formaður nefndarinnar er Svafa Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík. Aðrir nefndarmenn eru Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Sverrir Björnsson, framkvæmdastjóri hönnunarsviðs Hvíta hússins. Starfsmaður nefndarinnar er Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu.
Reykjavík 7. nóvember 2007