Jafnréttisfræðsla í leikskólum og grunnskólum
Nýtt verkefni sem miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í skólastarfi, þ.e. í leikskólum og grunnskólum, er að hefja göngu sína. Með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu er hægt að gefa ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum óháð staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali.
Meginmarkmið verkefnisins eru að efla jafnréttisfræðslu, að samþætta kynjasjónarmið í kennslu og að auka upplýsingaflæði um jafnréttismál. Verkefnið er tvíþætt: sett verður upp vefsíða þar sem upplýsingar um jafnréttisfræðslu verða aðgengilegar, auk upplýsinga um verkefni sem nota má í skólastarfi. Einnig verða fengnir grunnskólar og leikskólar til að sinna tilraunaverkefnum á sviði jafnréttismála og að nota vefsíðuna til kynningar á þeim.
Aðilar að verkefninu eru félagsmálaráðuneytið, Jafnréttisstofa, Jafnréttisráð, Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kópavogsbær og Akureyrarkaupstaður. Einnig hafa eftirfarandi aðilar þegar ákveðið að styrkja þetta verkefni: Menntamálaráðuneytið, Þróunarsjóður grunnskóla, Samtök Atvinnulífsins, Landsvirkjun og Sparisjóður Norðlendinga. Leikskólar og grunnskólar hjá Akureyrarkaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ munu taka þátt í verkefninu.
Jafnréttisstofa hefur umsjón með verkefninu og hefur verið auglýst eftir verkefnisstjóra. Nánari upplýsingar eru veittar hjá Jafnréttisstofu: [email protected]