Mikill hagvöxtur á Norðurlöndunum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Staða og horfur í efnahagsmálum voru til umræðu á haustfundi fjármálaráðherra Norðurlandanna sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Osló 30. október síðastliðinn.
Þar kom fram að mikill hagvöxtur hefur einkennt öll löndin. Í fyrra var hann að meðaltali 4% í Norðurlöndunum; mestur í Finnlandi 5% en minnstur í Noregi 2,8%. Verðbólga er lítil en hefur farið nokkuð vaxandi, meðal annars vegna aukinnar eftirspurnar, hagvaxtar og launaskriðs. Að meðaltali hefur verðbólgan verið minni á Norðurlöndunum en á evrusvæðinu en spár benda nú til þess hún verði meiri á næsta ári. Þá má jafnframt gera ráð fyrir að Ísland hætti að skera sig úr í þessum efnum.
Norðurlöndunum er það sameiginlegt að ástandið í fjármálum hins opinbera er mjög gott. Ísland er þar engin undantekning. Að meðaltali er reiknað með að afkoma hins opinbera á Norðurlöndum verði jákvæð um 5,9% af landsframleiðslu í ár, þegar áætlað er að afkoma hins opinbera á evru-svæðinu verði neikvæð um 1% af landsframleiðslu svæðisins, þótt dregið hafi úr hallanum á undanförnum árum.
Mikill hagvöxtur hefur haft umtalsverð áhrif á vinnumarkaði landanna. Þannig búa Danir nú við lægra atvinnuleysisstig en þeir hafa áður talið mögulegt, þótt það sé enn yfir 3%. Þrátt fyrir það hefur störfum ekki fjölgað tiltakanlega. Umframeftirspurn eftir vinnuafli ríkir einnig í Noregi og á Íslandi og í öllum þessum löndum hefur verið mikill aðflutningur vinnuafls, einkum frá Austur-Evrópu. Í Svíþjóð og Finnlandi hefur atvinnuleysi verið mun meira en á hinum Norðurlöndunum. Enda þótt það hafi minnkað er áætlað að það verði yfir 6% í báðum löndunum í ár. Bæði löndin eru einnig að fást við þann vanda að atvinnuþátttaka er lítil.
Í umræðum um hagvaxtarhorfur kom fram að spáð er heldur minni hagvexti á næsta ári en að undanförnu. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, benti á að fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn væru þeir einu sem spáðu litlum hagvexti á Íslandi enda væri ekki gert ráð fyrir nýjum stóriðjuframkvæmdum í spám þeirra. Aðrir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir meiri umsvifum. Árni benti á að losun gróðurhúsalofttegunda frá hinum fyrirhuguðu framkvæmdum rúmaðist innan heimilda Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni.