Staða ferðamálastjóra auglýst
Samgönguráðuneytið hefur auglýst starf ferðamálastjóra laust til umsóknar og verður skipað í starfið til fimm ára í senn frá 1. janúar 2008. Umsóknarfrestur er til 2. desember næstkomandi.
Ferðamálastofa fer með framkvæmd ferðamála undir yfirstjórn samgönguráðuneytis en 1. janúar á næsta ári flytjast málefni ferðaþjónustunnar til iðnaðarráðuneytisins. Ferðamálastjóri veitir Ferðamálastofu forstöðu, ræður annað starfsfólk stofnunarinnar og situr fundi ferðamálaráðs.
Starfið gerir meðal annars kröfur um háskólamenntun sem nýtist í starfi, reynslu af stjórnun og rekstri, þekkingu á Íslandi og íslenskri ferðaþjónustu og fleiri atriði. Jafnframt gerir starfið kröfur um að viðkomandi sé tilbúinn til að vera leiðandi í breytingaferli í nýju samstarfi lykilaðila í alhliða kynningu á Íslandi á erlendri grund. Æskilegt er að viðkomandi hafi þekkingu á stjórnsýslu.
Nánari upplýsingar veita Ragnheiður Dagsdóttir og Tómas Oddur Hrafnsson hjá Capacent Ráðningum og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Umsækjendur eru vinsamlega beðnir um að sækja um starfið á heimasíðu Capacent Ráðninga, www.capacent.is eigi síðar en 2. desember.