Vöruviðskiptin í október 2007
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum voru fluttar inn vörur fyrir 34,9 milljarða króna (fob virði) í október.
Er þetta töluverð aukning frá síðasta mánuði þegar innflutningurinn nam um 28 milljörðum. Hefur virði innfluttra vara ekki verið jafn hátt síðan í júlímánuði á síðastliðnu ári þegar innflutningur fjárfestingavara var í hámarki. Aukning er á innflutningi á hrá- og rekstrarvörum en á móti kemur að þessi innflutningur var með minnsta móti í síðasta mánuði.
Nokkur aukning varð einnig í innflutningi á fjárfestingavörum og hlutum til þeirra á milli mánaða en þessi innflutningur er þó að dragast saman eftir að hafa náð hámarki á sl. ári. Töluverð aukning var á ný í innflutningi fólksbifreiða og flutt var inn flugvél fyrir um 1,8 milljarð. Mesta athygli vekur þó mjög mikil aukning í innflutningi á hálf-varanlegum neysluvörum á milli mánaða.
Stór hluti af þeirri skýringu er innflutningur á málverkum og öðrum listaverkum en þrátt fyrir að sá liður sé tekinn út er innflutningur í hálf-varanlegum neysluvörum í sögulegu hámarki. Fluttar voru út vörur fyrir rétt tæpa 28,4 milljarða sem er einnig töluverð aukning frá fyrra mánuði þegar útflutningurinn nam 18,1 milljarði. Hefur virði útfluttra vara ekki verið jafn hátt síðan í mars á þessu ári. Nokkur aukning er í útflutningi á áli auk þess sem flutt er út flugvél fyrir rúmlega 1,8 milljarð.
Stærsta skýringin á þessum mikla mismun milli mánaða liggur þó í stórfelldum auknum útflutningi sjávarafurða. Samkvæmt þessu er vöruskiptahallinn um 6,5 milljarðar í október og er hallinn nokkuð að dragast saman aftur frá því að hann náði hámarki á síðastliðnu ári. Gert er ráð fyrir að sú þróun haldi áfram samfara auknum útflutningi á áli.