Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álitamál við skattlagningu ökutækja og eldsneytis

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Starfshópur fjármálaráðherra vinnur nú að gerð tillagna um heildarstefnu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis.

Hlutverk starfshópsins er að gera tillögur um samræmda skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem hafi það að markmiði að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, aukinnar notkunar innlendra orkugjafa og að fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins, auk þess að þjóna áfram sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Í samráðsferli því sem starfshópurinn hefur átt undanfarnar vikur við fjölmarga hagmunaaðila má segja að þau mörgu álitamál sem uppi eru í máli þessu hafi komið skýrt fram. Auk ofangreindra markmiða hins nýja skattlagningarkerfis er ljóst að það má ekki hafa sérstaklega skaðleg áhrif á einn hóp umfram annan, ekki raska samkeppnisumhverfi fyrirtækja og síðast en ekki síst má það ekki vera of flókið í framkvæmd.

Ólík sjónarmið eru uppi um hvaða leiðir í gegnum stjórntæki ríkisins séu heppilegastar til að ná þessum markmiðum. Að mati sumra er æskilegast að það sé gert í gegnum skattlagningu við innflutning og skráningu ökutækja á meðan aðrir benda á að réttara sé að horfa til skattlagningar á eldsneytinu í þessu samhengi.

Ýmis konar samspil af stofngjaldi (vörugjöld), fastagjaldi (bifreiðagjald), losunargjaldi (miðað við koltvísýringslosun) og veggjaldi (fyrir notkun vegakerfisins) hefur þannig verið reifað á fundum starfshópsins með hagsmunaaðilum.

Einnig hefur verið bent á fjölmörg önnur atriði sem m.a. snúa að hinni fjölbreyttu flóru vistvænna ökutækja og eldsneytisgjafa sem tækniþróun undanfarinna ára hefur leitt af sér. Þá hefur verið bent á að losun gróðurhúsalofttegunda og staðbundin mengun séu tveir ólíkir þættir sem sömu stjórntækin nái ekki endilega til, svo dæmi sé nefnt.

Miðað er við að starfshópurinn skili endanlegum tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. febrúar 2008.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta