Staða forstöðumanns Verðlagsstofu skiptaverðs er laus til umsóknar
Staða forstöðumanns
Verðlagsstofu skiptaverðs
er laus til umsóknar.
Staða forstöðumanns Verðlagsstofu skiptaverðs er laus til umsóknar. Skipað verður í stöðuna til fimm ára frá 1. janúar 2008. Aðsetur Verðlagsstofu er á Akureyri. Hlutverk hennar er að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna eins og nánar er kveðið á um í lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útgerðarmanna.
Forstöðumaður annast daglega stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á fjárreiðum og starfsmannahaldi. Hann ber einnig ábyrgð á þeim stjórnsýsluverkefnum sem Verðlagsstofu skiptaverðs er falið samkvæmt lögum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.
Menntunar- og hæfniskröfur:
- Háskólapróf eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi
- Þekking á sjávarútvegi
- Reynsla af stjórnun og rekstri
- Hæfni í mannlegum samskiptum
Við stöðuveitingar á vegum sjávarútvegsráðuneytis eru jafnréttissjónarmið höfð í huga og því eru bæði konur og karlar hvött til sækja um starfið.
Umsóknum skal skilað til sjávarútvegsráðuneytis, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík fyrir 2. desember 2007.
Sjávarútvegsráðuneytið, 13. nóvember 2007