Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Yfirstjórn málefna aldraðra og lífeyrismála flyst til félagsmálaráðuneytisins

Í hinu nýja frumvarpi er kveðið á um umtalsverðar breytingar. „Þetta eru löngu tímabærar breytingar sem ég fagna mjög og hlakka til að takast á við enda þótt verkefnið sé vissulega ögrandi og krefjandi. Það er mikilvægt að vel takist til þar sem um er að ræða einn mesta verkefnaflutning innan Stjórnarráðsins frá upphafi“, segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umfangsmikil verkefni flytjist 1. janúar 2008 frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Um er að ræða breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra.

Meginbreytingarnar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Yfirstjórn öldrunarmála færist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Breytingin endurspeglar það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kalli á heilbrigðisþjónustu heldur almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu. Yfirstjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra færist til félags- og tryggingamálaráðuneytis og fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra verður eins og verið hefur varið til uppbyggingar öldrunarþjónustu. Heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á veitingu heilbrigðisþjónustu til aldraðra sem annarra aldurshópa, samanber lög um heilbrigðisþjónustu.

Tryggingastofnun ríkisins færist undir félagsmálaráðuneytið en sjúkra- og slysatryggingar, sem eru meðal núverandi verkefna hennar, verða áfram á forræði heilbrigðisráðuneytisins. Úrskurðarnefnd almannatrygginga færist undir félags- og tryggingamálaráðherra.

Sett verður á fót ný stofnun sem heyrir undir heilbrigðisráðherra og mun meðal annars annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu.

Með þeim breytingum sem þetta frumvarp boðar næst skýr forgangsröðun verkefna í hvoru ráðuneyti fyrir sig og ráðist verður í umfangsmiklar aðgerðir til að bæta þjónustu á báðum sviðum. Heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra munu hvor um sig leggja fram frumvörp á vorþingi þar sem nánar verður gerð grein fyrir hlutverki og skipulagi stofnana sem komið verður á fót á grunni Tryggingastofnunar, en hún verður rekin með óbreyttu sniði til 1. september 2008. Lögð verður áhersla á að tryggja réttindi starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins við þær breytingar sem kveðið er á um í frumvarpinu.

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, félagslega aðstoð, sjúklingatryggingu, heilbrigðisþjónustu, málefni aldraðra og eftirlaun til aldraðra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta