Afhenti Landsvirkjun íslensku gæðaverðlaunin
Kristján L. Möller samgönguráðherra afhenti í dag íslensku gæðaverðlaunin og er Landsvirkjun handhafi þeirra í ár. Fjórir aðilar standa að Íslensku gæðaverðlaununum, Stjórnvísi, forsætisráðuneytið, Háskóli Íslands og VR og voru þau veitt í níunda sinn.
Í ávarpi sínu við afhendingu verðlaunanna sagði samgönguráðherra að gæði lýstu jákvæðum eiginleikum og hefðu í för með sér jákvæða strauma. Gæði væru hins vegar ekki sjálfsögð og þau snerust fyrst og fremst um ögun. Ráðherra gerði síðan grein fyrir greinargerð og niðurstöðu matsnefndar Stjórnvísi sem er á þessa leið:
,,Umsókn fyrirtækisins sem hlýtur Íslensku gæðaverðlaunin að þessu sinni, er einstaklega vel sett fram og góð fyrirmynd fyrir hvernig á að vinna slíka umsókn. Stjórnendur og starfsmenn sem matsnefndin hitti í heimsókn sinni sýndu mikinn áhuga og metnað í starfi sínu. Umræðan var jákvæð og gáfu stjórnendur fyrirtækisins raunsanna mynd af starfseminni og þeim þáttum sem lágu til grundvallar við matið. Ekki gafst kostur á að hitta forstjóra þar sem hann var erlendis en matsnefnd hitti staðgengil hans.”
Umsögn matsnefndar um fyrirtækið:
,,Matsnefndin heimótti öflugt og metnaðarfullt þekkingarfyrirtæki sem gefur sambærilegum fyrirtækjum erlendis ekkert eftir. Frumkvæði og metnaður starfsmanna fær notið sín í vel skilgreindu starfsumhverfi með virka, öfluga og stefnumiðaða mannauðsstjórnun þar sem vel er hlúð að starfsfólki. Staða mannauðsstjórnunar í skipuriti fyrirtækisins sýnir áherslur þess í starfsmannamálum. Mannauðurinn er virkjaður til hins ítrasta með umboð til athafna að leiðarljósi.
Upplýsingakerfi eru notuð á skilvirkan og hagnýtan hátt sem styður vel við markmið og verklag og eru góð fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki í notkun upplýsinga.
Leiðtogar og stjórnendur fyrirtækisins hafa skýra framtíðarsýn sem er unnin á mjög kerfisbundinn og skilvirkan hátt með virkri þátttöku starfsmanna. Stefnumörkun fyrirtækisins er kynnt og innleidd á öllum starfssviðum fyrirtækisins þar sem þarfir viðskiptavina og samfélagsins eru hafðar að leiðarljósi.
Fyrirtækinu er umhugað um ímynd sína og tekur mjög virkan þátt í samfélagslegum verkefnum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Fyrirtækið sem hlýtur Íslensku gæðaverðlaunin árið 2007 er: Landsvirkjun.”
Nokkrir starfsmanna Landsvirkjunar voru viðstaddir afhendingu verðlaunanna. Örn Marinósson, staðgengill forstjóra, tók við þeim úr hendi Kristjáns L. Möller samgönguráðherra. Í pontu er Þór G. Þórarinsson, formaður Íslensku gæðaverðlaunanna. | |||