Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2007 Dómsmálaráðuneytið

Endurskoðuðum Lúganósamningi ætlað að styrkja enn frekar samvinnu aðildarríkjanna í meðferð einkamála

Endurskoðuðum Lúganósamningi, sem undirritaður var 30. október sl. í Lúganó í Sviss, er ætlað að styrkja enn frekar samvinnu aðildarríkjanna í meðferð einkamála og auðvelda viðurkenningu og fullnustu dómsúrlausna með samræmdum reglum. Aðilar að samningnum eru EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Sviss og öll ríki Evrópusambandsins.

Með samningnum er leitast við að ná fullu samræmi við reglugerð ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 44/2001/EB (svokallaða Brusselreglugerð) svo að sömu reglur gildi um dómsvald, varnarþing, viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum í EFTA-ríkjunum Íslandi, Noregi og Sviss og ESB-ríkjunum.

Eldri samningur um þetta efni er frá 16. september 1988 og var hann fullgiltur af Íslands hálfu með lögum frá 10. mars, nr. 68/1995. Í raun er ekki um miklar efnisbreytingar að ræða frá þeim samningi en þó er ýmis nýmæli að finna í honum, s.s. nýjan kafla um varnarþing í vinnusamningum einstakra manna. Þá hafa ný ríki gerst aðilar að Lúganósamningnum með aðild að ESB og tekur hann mið af því.

Nánari upplýsingar veitir
Gunnar Narfi Gunnarsson lögfræðingur, [email protected]



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum