Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2007 Matvælaráðuneytið

26. ársfundur Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefdarinnar, NEAFC.

Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu

Veiðar Íslendinga úr deilistofnun á Norðaustur-Atlantshafi gætu numið allt að hálfri milljón tonna á næsta ári.

Í dag lauk í Lundúnum 26. ársfundi Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC. Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á kolmunna, úthafskarfa, norsk-íslenskri síld og makríl fyrir árið 2008 auk verndunar viðkvæmra hafsvæða og aðgerða gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum.

Á fundinum náðist samkomulag um stjórn kolmunnaveiða sem öll veiðiríkin samþykkja. Á árinu 2005 náðist strandríkjasamkomulag um stjórn veiðanna, sem batt enda á stjórnlausar ofveiðar fyrri ára. Ákveðið var að á árinu 2008 verði heimilað að veiða alls 1.266 milljónir tonna af kolmunna, þar sem hlutur Íslands er tæp 203 þúsund tonn, eins og samþykkt var á fundi strandríkjanna í október. Þriðja árið í röð verður því dregið úr kolmunnaveiðum til að vinna að því markmiði að veiðarnar verði sjálfbærar.

Ekki náðist samkomulag um stjórn veiða á úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Á fundinum var hins vegar ákeðið að strandríkin bjóði til fundar með öllum aðildarríkjum NEAFC 15.-16. janúar 2008. Á þeim fundi er stefnt að því að ná samkomulagi um stjórn veiðanna, þar með talið um heildaraflamark og skiptingu aflamarks meðal allra aðildarríkja NEAFC.

Á fundinum náðist samkomulag um 14.500 tonna úthafskarfaafla í síldarsmugunni. Að mati Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, er stofninn talinn standa illa og hefur ráðið lagt til að engar beinar veiðar séu stundaðar úr honum. Í ár voru veidd um u.þ.b. 15.000 tonn af úthafskarfa á svæðinu. Á fundinum lögðu Norðmenn fram tillögu um að engar veiðar yrðu heimilar á þessu ári og meðafli við aðrar veiðar yrði ekki meiri en 1%. Íslendingar studdu tillögu Norðmanna, enda var hún í samræmi við vísindaráðgjöf. Fulltrúar Færeyinga, Rússlands og Evrópusambandsins gátu ekki stutt tillögu Norðmanna um engar veiðar og varð niðurstaðan sú að leyfa veiðar á 14.500 tonnum af úthafskarfa í síldarsmugunni á tímabilinu 1. september til 15. nóvember 2008 og meðafli á karfa fari ekki yfir 1% við aðrar veiðar. Veiðiheimildum er ekki skipt á milli aðila og verða veiðarnar stöðvaðar þegar heildaraflamarkinu, 14.500 tonnum, verður náð. Skrifstofa NEAFC mun halda utan um upplýsingar um veiðarnar.

Á grunni samkomulags strandríkja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum var ákveðið að heildaraflamark fyrir árið 2008 yrði 1.518.000 tonn. Í hlut Íslands á árinu 2008 koma 220.262 tonn.

Samþykkt var tillaga um stjórn makrílveiða, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands, líkt og áður, á því að í samkomulaginu er ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Samkomulag varð um frekari og áframhaldandi lokanir á svæðum þar sem talið er að finnist viðkvæm vistkerfi, svo sem kórallar. Þetta er liður í starfi NEAFC að verndun viðkvæmra hafsvæða sem aukin áhersla hefur verið lögð á undanfarin ár. Á ársfundinum var ákveðið að frekari vinna fari fram á vettvangi NEAFC í tengslum við slíka verndun og svæðastjórnun. Liður í þeirri vinnu er skoðun á því með hvaða hætti NEAFC getur best tekið tillit til samþykktar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna árið 2006. Í þeim tilgangi verður haldinn sérstakur aukaársfundur NEAFC í júlí á næsta ári.

Hinn mjög svo ánægjulegi árangur í baráttunni gegn ólöglegum veiðum var jafnframt til umræðu. Á þessu ári veiddu í fyrsta skipti í fjölda ára engin sjóræningjaskip karfa á Reykjaneshrygg. Ljóst er að aðgerðir NEAFC undanfarin misseri voru lykillinn að þessum árangri.

Í tengslum við ársfundinn hittust á fundi formenn sendinefnda NEAFC og OSPAR samningsins um vernd umhverfis sjávar á Norðaustur-Atlantshafi. Þar var til umfjöllunar frekara samstarf milli þessarra stofnana og verður unnið að því að koma því í fastara form.

Á fundi NEAFC voru ýmis önnur mál jafnframt á dagskrá og má þar nefna að all nokkur umræða átti sér stað um nauðsyn þess að öll aðildarríkin færu í öllu að gildandi reglum varðandi upplýsingjöf skipa um afla og skil á aflaupplýsingum. Á þessu hefur verið nokkur misbrestur.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Steinar Ingi Matthíasson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Auk fulltrúa sjávararútvegsráðuneytisins voru í sendinefnd Íslands á fundinum fulltrúar utanríkisráðuneytisins, Hafrannsóknastofnunarinnar, Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu er forseti NEAFC og var fundarstjóri.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 16. nóvember 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta