Ráðherra kynnir tvo nýja vefi fyrir nemendur með lestrarerfiðleika
Ráðherra kynnti í dag tvö ný verkefni sem menntamálaráðuneytið kemur að og eru öllum aðgengileg á netinu.
Ráðherra kynnti í dag tvö ný verkefni sem menntamálaráðuneytið kemur að og eru öllum aðgengileg á netinu. Um er að ræða tvö ólík verkefni sem eiga það sameiginlegt að geta m.a. komið að gagni fyrir nemendur með lestrarerfiðleika. Um er að ræða vef um lestrarerfiðleika og lesvél fyrir vef.
Vefurinn, http://lesum.khi.is, er liður í stærra verkefni sem nú er unnið að í ráðuneytinu og er markmið þess að auka þjónustu við nemendur með lestrarerfiðleika, foreldra og kennara. Það er Kennaraháskóli Íslands sem hefur veg og vanda af vefnum. Þar má m.a. finna ýmsar upplýsingar um lestrarerfiðleika og efni tengt læsi auk þess sem nemendur, foreldrar og kennarar geta sent inn fyrirspurnir.
Lesvélin byggir á nýrri tækni sem auðveldar aðgengi fólks með lestrarerfiðleika að rituðu mál á netinu. Tæknin sem hér um ræðir er upplestrarþjónusta, sem notar miðlæga lesvél til að lesa hvaða texta sem er beint af netinu. Þessi íslenska lesvél hefur fengið nafnið Ragga. Menntamálaráðuneytið styrkti gerð Röggu en það er fyrirtækið Hexia sem sá um skipulag og framkvæmd í samvinnu við Háskóla Íslands, Símann og Trackwell. Aðgangur að lesvélinni er öllum opinn en hana er að finna á slóðinni, http://hexia.net/upplestur.