Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Erlend lán heimila

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á undanförnum misserum hefur talsvert verið rætt um lántöku íslenskra heimila í erlendum gjaldmiðlum.

Sum hver þessara lána bera fljótandi vexti sem ráðast af stýrivöxtum þess myntsvæðis sem höfuðstóllinn tilheyrir. Þá ræðst virði höfuðstólsins í íslenskum krónum af því hvernig gengi krónunnar stendur gagnvart viðkomandi gjaldmiðli. Reynsla undanfarinna ára sýnir að vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands hafa áhrif á greiðslubyrði slíkra lána í gegnum gengi krónunnar.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvernig erlend lán heimila standa í samanburði við ráðstöfunartekjur. Hér er hlutfall erlendra lána af ráðstöfunartekjum fyrir árið 2007 miðað við meðaltal erlendra lána það sem af er ári á móti ráðstöfunartekjum í spá fjármálaráðuneytisins. Einnig má sjá á myndinni hlutfall erlendra lána af heildarskuldum heimila við lánakerfið, en fyrir árið 2007 er miðað við fyrirliggjandi meðalstöðu erlendra lána og meðalstöðu skulda heimila við lánakerfið yfir sama tímabil. Tölur fyrir árið 2007 miðast við stöðu í lok september.

Erlend lán heimila

Sjá má að erlendar skuldir heimila hafa vaxið hraðar en ráðstöfunartekjur þeirra á undanförnum árum, þrátt fyrir mikinn vöxt ráðstöfunartekna. Erlendar skuldir heimila námu 108 milljörðum í september 2007, sem er 93% aukning frá sama tíma á fyrra ári, þegar slík lán námu 56 milljörðum króna. Af þessum 108 milljörðum eru einungis um 25 milljarðar vegna húsnæðislána. Þrátt fyrir þessa þróun eru erlend lán enn í minnihluta heildarskulda heimila við lánakerfið eins og dökkbláa línan á myndinni sýnir, en styrking gengisins á þessu ári lækkar hlutfallið.

Snörp lækkun á gengi krónunnar myndi koma illa við íslensk heimili, bæði vegna þess að afborganir af erlendum lánum í krónum hækka en einnig vegna þess að gengislækkun er líkleg til að auka á verðbólgu sem hækkar afborganir og höfuðstól verðtryggðra lána. Af ofangreindu er að sjá að næmni heimilanna fyrir breytingum á gengi krónunnar er nokkur. Þó er næmnin ekki talin vera það mikil að hún sé líkleg til að skapa vandamál fyrir fjármálalegan stöðugleika í landinu jafnvel þótt komi til umtalsverðrar gengislækkunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta