Tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum innfluttra ökutækja
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 15. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Eftir nokkurn samdrátt frá fyrra ári í upphafi árs hefur nýskráningum bifreiða fjölgað á ný á seinni hluta ársins.
Í kjölfar gengislækkunar krónunnar í mars og apríl á síðasta ári dró verulega úr nýskráningum bifreiða, en með sterkara gengi á þessu ári hefur innflutningur bifreiða farið vaxandi og ársbreytingin farið úr því að vera neikvæð í að vera jákvæð. Þetta hefur áhrif á tekjur ríkissjóðs, en eftir því sem liðið hefur á árið hafa vörugjöld af ökutækjum nálgast það sem þau voru á síðasta ári.
Þannig voru uppsöfnuð vörugjöld um 36% minni að raunvirði í lok fyrsta ársfjórðungs miðað við sama tíma fyrra árs, um 22,5% minni í lok annars ársfjórðungs og um 5,9% minni í lok þess þriðja. Sjá má á myndinni hvernig vörugjöldin hafa þróast að raunvirði, en hér er miðað við vísitölu neysluverðs í janúar 2006. Sjá má hvernig vörugjöldin drógust umtalsvert saman í maí árið 2006 frá fyrra mánuði í kjölfar gengislækkunar.
Á þessu ári má sjá að fram til júní var hægur stígandi í vörugjöldum af ökutækjum. Það endurspeglar vaxandi eftirspurn heimilanna innan ársins sem m.a. kemur fram í einkaneyslutölum þjóðhagsreikninga Hagstofu Íslands, en nýskráningar bifreiða eru ein af helstu vísbendingum um þróun einkaneyslu. Af myndinni að dæma má því gera ráð fyrir nokkrum vexti einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi.
Á árinu 2006 námu vörugjöld af ökutækjum um 10,2 milljörðum króna en í lok september á þessu ári námu uppsöfnuð vörugjöld um 8,1 milljarði króna. Vörugjöld á hvern nýskráðan bíl hafa ekki aukist sjáanlega miðað við fyrra ár þrátt fyrir umtal um innflutning á mjög dýrum bílum.