Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2007 Matvælaráðuneytið

Nr. 10/2007 - Ísland leggur áherslu á sjávarútvegsmál og þróunarsamvinnu hjá FAO

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði í gær 34. aðalfund Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, en fundurinn stendur fram á laugardag í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Róm.

Í upphafi ræðu sinnar bauð Einar Færeyinga sérstaklega velkomna, en aukaaðild Færeyja að FAO var staðfest í upphafi aðalfundarins síðastliðinn laugardag.

Einar lagði áherslu á mikilvægi sjávarútvegs fyrir fæðuöryggi og efnahagslega velsæld í heiminum og mikilvægi FAO sem þeirrar hnattrænu stofnunar sem færi með sjávarútvegsmál. Í því samhengi benti hann á að Ísland hefur tekið virkan þátt í fjölbreyttu starfi varðandi sjávarútveg innan FAO, nú síðast varðandi fjareftirlit með fiskiskipum sem getur bætt bæði fiskveiðistjórnun og öryggi sjómanna.

Einar tók baráttuna gegn sjóræningjaveiðum sem dæmi um málefni þar sem samstarf innan FAO skiptir miklu máli, en benti jafnframt á að fiskveiðistjórnun bæri að sinna á vettvangi einstakra ríkja eða á svæðisbundnum vettvangi. Enginn fiskistofn væri hnattrænn og því væri hnattræn fiskveiðistjórnun óskynsamleg. Rétt væri að halda áfram að standa vörð um þá nálgun sem mörkuð væri m.a. með hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

Ísland hefur aukið fjárframlög sín til þróunarsamvinnu umtalsvert á undanförnum árum og fjallaði Einar um það í ræðu sinni. Benti hann í því sambandi m.a. á nýtt verkefni gegn jarðvegseyðingu. Verkefnið verður að hluta unnið í samvinnu við FAO og mun styrkja enn frekar samvinnu Íslands og FAO á sviði landbúnaðar og sjálfbærrar nýtingar lands, þar sem þekking Íslendinga á landgræðslu og skógrækt myndi nýtast vel.

Að lokum fagnaði Einar þeirri óháðu úttekt á starfi FAO sem nú er nýlokið og sagði hana geta orðið góðan grunn að umbótum stofnunarinnar á ýmsum sviðum, þ.m.t. í jafnréttismálum og við að innleiða nútímalegri stjórnunarhætti.

Í tengslum við aðalfundinn sat Einar tvo ráðherrafundi um afmörkuð mál, en á báðum þeirra voru um 300 þátttakendur auk tuga ráðherra alls staðar frá í heiminum. Annars vegar var fundur um fiskeldi, þar sem áhersla var lögð á uppbyggingu fiskeldis í þróunarríkjum. Hins vegar var fundur um fjármögnun landbúnaðar í þróunarríkjum. Var Einar formaður og fundarstjóri síðarnefnda fundarins þar sem aðalframkvæmdastjóri FAO, varaforseti Zambíu, aðstoðarframkvæmdastjóri landbúnaðarmála hjá Evrópusambandinu og framkvæmdastjóri verkefnis um græna byltingu í Afríku héldu erindi áður en almennar umræður ráðherra hófust.

Einnig átti Einar fundi með ýmsum ráðherrum og embættismönnum, þ.m.t. dr. Jacques Diouf aðalframkvæmdastjóra FAO og Ichiro Nomura framkvæmdastjóra fiskimáladeildar FAO.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar færeyski fáninn var í fyrsta sinn dreginn að húni við höfuðstöðvar FAO. Á myndinni eru Jóannes Eidesgaard lögmaður Færeyja, Einar K. Guðfinnsson og Bjørn Kalsø sjávarútvegsráðherra Færeyja.

Ræðuna í heild sinni má sjá hér.

Reykjavík 21. nóvember 2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta