Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Von á leiðbeiningum og reglum um losun á kjölfestuvatni

OSPAR-samningurinn
OSPAR-samningurinn

Leiðbeiningar um losun á kjölfestuvatni skipa verða væntanlega samþykktar á vegum Samnings um verndun NA-Atlantshafsins (OSPAR) í febrúar á næsta ári. Á fundi OSPAR, sem fram fór í Lundúnum fyrir skömmu, var fjallað um drög að slíkum leiðbeiningum, en bresk stjórnvöld hafa unnið að gerð þeirra. Hér á landi er að hefjast undirbúningur að reglum um losun á kjölfestuvatni.

Samkvæmt fyrirhuguðum leiðbeiningum ættu skip að losa kjölfestuvatn í að minnsta kosti 200 sjómílna fjarlægð frá landi og þar sem er 200 metrar dýpi hið minnsta.

Flutningur lífvera með kjölfestuvatni skipa er nú talin vera alvarleg ógn sem steðjar að umhverfi hafsins á heimsvísu. Hætta er á að í kjölfestuvatni séu lífverur sem lifa af siglingu um langa leið og nái að þrífast á nýjum heimkynnum. Slíkar lífverur eiga oft enga náttúrulega óvini á nýja staðnum og geta því breytt viðkomandi vistkerfi og haft langvarandi áhrif á lífríki og nýtingu lifandi auðlinda hafsisins þ.m.t. fiskveiðar.

Lengi var talið að hafinu við Ísland stafaði ekki mikil ógn af losun á kjölfestuvatni vegna þess að sjór hér við land er tiltölulega kaldur auk þess sem fátítt var að skip kæmu ólestuð til landsins. Þetta hefur breyst og á ekki lengur við m.a. vegna aukinnar iðnaðarstarfsemi hér á landi og hlýnunar sjávar.

Sem stendur eru ekki í gildi alþjóðlegar reglur um losun kjölfestuvatns. Hins vegar hefur Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) gefið út leiðbeiningar í því skyni að draga úr líkum á skaðlegum áhrifum af kjölfestuvatni.

Markmið OSPAR-samningsins er að koma í veg fyrir mengun Norðaustur-Atlantshafsins með því að draga úr mengun frá landi, mengun af völdum varps og brennslu, og mengun frá uppsprettum í hafi. Auk þess taka ákvæði samningsins til mats á ástandi hafsins og verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins.

Heimasíða OSPAR.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta