Útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. nóvember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2008 verða útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála samtals 94 milljarðar króna.
Frá árinu 1998 og til ársins 2008 er áætlað að útgjöld í þessum málaflokki aukist um 38 milljarða króna og er þá tekið tillit til verðlagsbreytinga. Það jafngildir 68% aukningu að raungildi.
Í töflunni má sjá árleg útgjöld til almannatrygginga og velferðarmála á árinu 1998 á áætluðu verðlagi ársins 2008 samanborið við fjárlagafrumvarp 2008. Útgjöldin samsvara 21,9% af heildarútgjöldum ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2008. Árið 1998 voru útgjöldin í þessum málaflokki 19,2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og hefur því hlutdeildin hækkað um 2,7 prósentustig.
Yfir helmingur útgjaldanna er vegna lífeyristrygginga til elli- og örorkulífeyrisþega en þar hafa árleg útgjöld aukist um 21 milljarð króna á tímabilinu. Þá hafa útgjöld vegna sjúkra-, mæðra- og örorkubóta aukist um 6 milljarða króna og útgjöld vegna málefna fatlaðra um tæplega 5 milljarða króna.
Ekki þarf að koma á óvart að útgjöld í málefnaflokknum aukist nokkuð, meðal annars vegna fólksfjölgunar. En aukningin er þó mun meiri en sem nemur fólksfjölgun þar sem útgjöld á mann hafa hækkað umtalsvert eða um 46% á árunum 1998 til 2008 m.v. áætlað verðlag 2008. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2008 verða útgjöldin tæplega 300 þús. kr. á mann en voru um 205 þús. kr. á mann árið 1998.
Útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála
í milljónum króna
Á verðlagi ársins 2008
|
1998
|
2008
|
Hækkun
|
Hækkun %
|
---|---|---|---|---|
Sjúkra-, mæðra- og örorkubætur |
3.106
|
9.061
|
5.955
|
192
|
Elli-, örorku- og ekkjulífeyrir |
28.654
|
49.795
|
21.141
|
74
|
Atvinnuleysisbætur |
4.004
|
5.830
|
1.826
|
46
|
Fjölskyldu- og barnabætur |
7.666
|
10.719
|
3.053
|
40
|
Önnur félagsleg aðstoð |
6.106
|
6.614
|
508
|
8
|
Barna- og unglingaheimili |
458
|
839
|
381
|
83
|
Málefni fatlaðra |
4.742
|
9.419
|
4.678
|
99
|
Önnur velferðarheimili |
46
|
186
|
140
|
304
|
Önnur velferðarþjónusta |
1.319
|
1.847
|
528
|
40
|
Samtals |
56.101
|
94.311
|
38.210
|
68
|