Úttektir á sjálfsmatsaðferðum grunn- og framhaldsskóla
Menntamálaráðuneyti auglýsir hér með eftir aðilum til að taka að sér verkefni á sviði úttekta á sjálfsmatsaðferðum 25 grunnskóla og 10 framhaldsskóla vorið 2008. Grunnskólarnir eru á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi en framhaldsskólarnir á höfuðborgarsvæði, Norðurlandi og Austurlandi.
Óskað er eftir umsóknum í úttektirnar í heild, þ.e. 35 skóla, eða hluta þeirra. Ef um er að ræða hluta úttektanna skal miða við úttektir í 10 framhaldsskólum eða 25 grunnskólum. Gert er ráð fyrir að úttekt í hverjum skóla verði í höndum tveggja til þriggja einstaklinga sem saman hafi menntun og reynslu á sviði sjálfsmats, skólastarfs á viðkomandi skólastigi og ytra mats.
Verkefnið skal inna af hendi á tímabilinu febrúar til maí 2008. Nauðsynlegt er að úttektaraðilar hafi aðgang að Veraldarvefnum. Menntamálaráðuneyti greiðir fasta greiðslu fyrir úttekt í hverjum skólum og er þá ferða- og uppihaldskostnaður innifalinn í greiðslunni.
Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil umsækjenda skulu berast menntamálaráðuneytinu fyrir 3. desember 2007. Nánari upplýsingar veitir starfsfólk mats- og greiningarsviðs menntamálaráðuneytis.