Sveitarfélög komi í auknum mæli að rekstri náttúrustofa
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segist undrast hversu erfiðlega gangi að fá fleiri sveitarfélög að rekstri náttúrustofa. Þegar stjórnvöld hafi ákveðið að ríkisvaldið setti fjármagn til uppbyggingar og reksturs náttúrustofa hafi vonir þeirra staðið til þess að öll sveitarfélög í viðkomandi landshlutum kæmu að rekstri stofanna með fjárframlögum og áhuga. Það hafi því miður ekki orðið raunin. Þetta var meðal þess sem fram kom í ávarpi Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra á ársfundi Samtaka náttúrustofa í Náttúrugripasafni Bolungarvíkur í dag. Umhverfisráðherra sagði að ef fleiri sveitarfélög kæmu að rekstri náttúrustofanna ætti að skapast grundvöllur fyrir frekari fjölgun starfa og styrkingu náttúrustofanna.
Allir samningar umhverfisráðuneytisins við náttúrustofur nema einn renna út í lok ársins. Ráðuneytið er að hefja vinnu við endurnýjun samninganna og mun á næstunni ræða við þau sveitarfélög sem eiga aðild að rekstri náttúrustofanna í dag. Í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur er kveðið á um að eitt eða fleiri sveitarfélög geti átt og rekið náttúrustofur með stuðningi ríkisins. Umhverfisráðherra sagði á ársfundi Samtaka náttúrustofa í morgun að hún teldi mikilvægt að sem flest sveitarfélög taki þátt í rekstri hverrar náttúrustofu og nýti sér þjónustu hennar. Þannig yrðu starfsemi stofanna styrkt.
Fjárframlög ríkisins til náttúrustofanna hafa farið hækkandi undanfarin ár og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2008 verða fjárveitingar samtals ríflega 72 milljónir króna. Framlögum ríkisins til stofanna er stakkur skorinn í lögunum og af fjárlögum og miðast nú við laun forstöðumanns og allt að sömu upphæð til húsnæðis og reksturs. Gert er ráð fyrir 9,2 milljóna króna fjárveitingu til hverrar náttúrustofu, nema stofunnar í Bolungarvík. Samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að hún fái rúmar 17 milljónir króna, einkum vegna sérverkefna. Þess má geta að Náttúrustofa Bolungarvíkur fagnar 10 ára afmæli á þessu ári.
Náttúrustofurnar gegna umfangsmiklu og fjölbreyttu hlutverki í rannsóknar- og vöktunarverkefnum og sinna mikilvægri þjónustu við sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki. Í máli umhverfisráðherra í morgun kom fram að það skipti verulegu máli fyrir byggðir landsins að fræðimenn, vísindaleg þekking og færni á sviði náttúrufræða og annarra fræðigreina fyrirfinnist sem víðast. Uppbygging náttúrustofanna hefði skapað 25-30 störf á stofunum sjálfum á tæpum 15 árum sem liðin eru frá því að lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur tóku gildi.
Náttúrustofunum hefur fjölgað jafnt og þétt og eru þær nú orðnar sjö talsins, sú nýjasta var sett á laggirnar á Húsavík fyrir Norð-Austurland árið 2004. Nú er því eingöngu svigrúm, samkvæmt lögunum, fyrir stofnun einar náttúrustofu til viðbótar, en í lögunum er gert ráð fyrir að umhverfisráðuneytið geti tekið þátt í rekstri allt að átta náttúrustofa á landinu. Viðræður hafa staðið um nýja náttúrustofu á suð-austur horni landsins sem rekin yrði í samvinnu milli Skaftárhrepps og Sveitarfélagsins Hornafjarðar.