43. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu
43. þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands
Á 43. þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands fjallaði Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra meðal annars um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjölfar niðurskurðar á þorskkvóta og hvernig þær snúa að sjávarútvegi. Þá greindi ráðherra frá skipan starfshóps til að fara yfir hvernig efla megi togararall Hafrannsóknastofnunarinnar.
Ráðherra fór yfir þær aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem beinlínis snúa að sjávarútvegsráðuneytinu og þar með beint að greininni. Þegar hafi verið ráðstafað 645 milljónum króna til ýmissa verkefna. Af því séu 570 milljónir til komnar vegna mótvægisaðgerðanna og sú tala eigi eftir að hækka. „Þar af eru 250 milljónir vegna niðurfellingar á veiðigjaldi á þorski á þessu fiskveiðiári en ómögulegt er að segja til um hver upphæðin verður á næsta fiskveiðiári þar sem þetta er tengt afkomu greinarinnar. Hundrað og fimmtíu milljónir króna alls á þremur árum eru til eflingar á togararalli Hafrannsóknastofnunarinnar og 120 milljónir króna skiptust jafnt á milli sex rannsóknastofnana og -setra vítt og breitt um landið.
Vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að efla samkeppnissjóði, hækka framlög til AVS-sjóðsins í fjárlögum 2008 um 50 milljónir króna. Því til viðbótar var ákveðið að verja öðrum 50 milljónum til AVS og nemur þetta því samtals 100 milljónum króna. Auk þessa ákvað ég að hækka framlag til samkeppnisrannsókna Verkefnasjóðs sjávarútvegsins úr 25 milljónum króna í 50 milljónir króna á ári. Auknu rannsóknafé skal fyrst og fremst beint til þorskrannsókna.“
Það sé af og frá að halda því fram að ekkert sé gert fyrir greinina eins og sumir hafi gert. Fjármunir til hafrannsókna aukist verulega, stuðlað sé að meiri fjölbreytni með því að styrkja sjávarrannsóknasetur út um landið og fé til samkeppnisrannsókna tvöfaldað. Þá sé togararall Hafrannsóknastofnunarinnar eflt sérstaklega. Búið sé að skipa starfshóp hagsmunaaðila til að fara yfir hvernig það verði best gert. Í starfshópnum eru: Páll Halldórsson og Birgir Sigurjónsson frá FFSÍ, Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson frá LÍÚ, Arthúr Bogason frá LS og frá Hafrannsóknastofnun Björn Ævar Steinarsson, Höskuldur Björnsson, Þorsteinn Sigurðsson og Jón Sólmundsson sem leiðir starf hópsins.
Þá fór ráðherra yfir ýmislegt fleira sem ráðuneytið hefur gert, meðal annars að ábendingu FFSÍ, til að milda höggið sem sjómenn verða fyrir vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Reglum og vinnubrögðum í tengslum við svo kölluð reglugerðarhólf og friðuð hólf innan lögsögunnar hafi berið breytt sem og viðmiðunarmörkum í ýsu o.fl. „Með þessum aðgerðum vildi ég freista þess að koma til móts við vel rökstuddan málflutning forystumanna ykkar og margra skipstjórnarmanna sem ég hef rætt við á umliðnum mánuðum í kjölfar niðurskurðar aflaheimilda. Mér er það ljóst að við verðum að gera allt sem unnt er til að það takist að gera sem mest verðmæti úr því sem veitt er og tryggja aðgengi að þeim fisktegundum sem við viljum ná. Það mun stuðla að bættum kjörum íslenskra sjómanna og útgerða og veitir svo sannarlega ekki af núna, eins og við vitum.“
Ræðuna í heild sinni má sjá hér
Sjávarútvegsráðuneytinu 29. nóvember 2007