Landkynningarsvæði tekið í notkun í Leifsstöð
Landkynningarsvæði hefur verið tekið í notkun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kristján L. Möller samgönguráðherra og Jón Gunnarsson, formaður stjórnar FLE, klipptu á borða í dag og opnuðu svæðið.
Svæðið er á neðri hæð í brottfararsal við enda ranans í stöðinni og þar er sýnd mynd um náttúru Íslands. FLE og kynningarátakið Iceland Naturally greiddu kostnað við verkið en hönnun var í höndum Gagaríns, Árna Páls Jóhannssonar og Karls Óskarssonar.
Í ávarpi Kristjáns L. Möller í opnunarathöfn í dag kom meðal annars fram að tilgangurinn með landkynningarsvæðinu er að gefa ferðamönnum sem hafa viðdvöl í Leifsstöð á leið yfir hafið tækifæri til að kynnast broti af náttúru Íslands og með því ef til vill fá þá til að stöðva lengur í næstu ferð. Myndin er sýnd á stórum skjá og undir er tónlist Hilmars Arnar Hilmarssonar.