Loftslagsbreytingar eru stórfelld ógn við þróun lífskjara
,,Okkar hlutskipti hlýtur að vera að bretta upp ermarnar og bjóða fram krafta okkar til lausnar á vandanum." Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra í ávarpi á kynnungu Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi á Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna fyrir skömmu. Loftslagsbreytingar eru umfjöllunarefni skýrslunnar að þessu sinni.
Ræða umhverfisráðherra
Umhverfisráðherra sagði ennfremur að fáar vísitölur hefðu jafn mikið vægi og jafn mikla athygli og þróunarvísitala S.þ. sem birtist í skýrslunni. Hún mældi ekki aðeins efnislega auðlegð ríkja, heldur líka meðalævilengd og menntun og gæfi þannig grófa en sannferðugan mælikvarða á velferð þjóða. Það væri ánægjulegur vitnisburður um íslenskt samfélag að það sé í hópi einungis fimm ríkja sem hafi verið í efsta sæti þróunarvísitölunnar frá því hún var fyrst birt árið 1980. Þá vakti umhverfisráðherra athygli á því að Ísland yrði ekki eitt helsta fórnarlamb loftslagsbreytinga því að Íslendingar hefðu alla burði til að aðlagast breyttum aðstæðum. Helstu fórnarlömbin yrðu hin fátæku ríki sem væru með lægstu þróunarvísitöluna og bæru minnsta ábyrgð á loftslagsbreytingum vegna losunar á gróðurhúsalofttegundum. Íslendingar yrðu þess vegna að bretta upp ermarnar og bjóða fram krafta sína til að hjálpa slíkum þjóðum, t.d. með fræðslu um nýtingu á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þannig væru Íslendingar um einn tíu þúsundasti af loftslagsvandanum en gætu verið miklu stærri hluti af lausninni. Hér má lesa ræðu umhverfisráðherra í held sinni.
Íslensk samantekt Þróunarskýrslu S.þ.
Í formála að íslenskri samantekt Þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna segir m.a: ,,Til langs tíma eru loftslagsbreytingar stórfelld ógn við þróun lífskjara og á sumum stöðum hafa þær þegar haft áhrif á aðgerðir alþjóðasamfélagsins til að stemma stigu við fátækt. Þróunaraðstoð mætir æ fleiri hindrunum vegna loftslagsbreytinganna. Við erum því knúin til að líta á báráttuna gegn fátækt og loftslagsbreytingum sem tvíþætta baráttu þar sem hvor þátturinn styður hinn þannig að sigur vinnist samtímis á báðum vígstöðvum. Árangur verður mældur á kvarða aðlögunar, þar sem loftslagsbreytingar munu hafa djúpstæð áhrif á fátækustu ríki heims þrátt fyrir að farið verði í strangar aðgerðir til að takmarka losun strax.
Hægt er að nálgast skýrsluna og íslenska samantekt á heimasíðu Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.